Ekki hægt að ætlast til þess að þetta verði auðvelt

Halldór Harri Kristjánsson segir mikið þurfa að laga í leik …
Halldór Harri Kristjánsson segir mikið þurfa að laga í leik Stjörnunnar. Kristinn Magnússon

„Okkar leikur var ekkert rosalega góður,“ sagði Halldór Harri Kristjánsson þjálfari Stjörnunnar eftir að liðið lagði Gróttu með 10 mörkum í Olís-deildinni í kvöld.

„Mér fannst við vera lengi í gang og tókum lélegar ákvarðanir sóknarlega sem gerði það að verkum að við fengum á okkur svolítið af mörkum úr hraðaupphlaupum, en Grótta er sterkt í því. Þegar leið á leikinn sýndum við að við erum með betra lið í dag og vinnum þetta sannfærandi.“

Þór­hild­ur Gunn­ars­dótt­ir skoraði sjö mörk fyr­ir Stjörn­una, Stef­an­ía Theo­dórs­dótt­ir sex og Rakel Dögg Braga­dótt­ir bætti við fimm mörk­um. Dröfn Har­alds­dótt­ir átti góðan leik í mark­inu og varði 16 skot.

Stjarnan skoraði 35 mörk, er það eitthvað sem er hægt að kvarta yfir?

„Nei, það er auðvitað ekki hægt að kvarta yfir því og við fengum mörg hraðaupphlaup. Þar að auki var Dröfn mjög góð í markinu og átti stórleik. Vörnin gaf aðeins eftir í lokin sem gerði það að verkum að hún var ekki með þá prósentu sem hún hafði vonast eftir. Hún var virkilega góð og það er gott að sjá að hún sé tilbúin.“

„Mér fannst við að vísu ekki alveg komast í gang en ég er sáttur með tvö stig og 10 marka sigur, það er fyrir öllu.“

Stjarnan varð deildarmeistri í fyrra og var spáð öðru sætinu í ár. Liðið hefur hinsvegar ekki farið eins vel af stað og það hefði vonað, en eru væntingarnar að trufla leikmennina?

„Við erum ekkert að stressa okkur á þessari spá, auðvitað er okkur spáð ofarlega og það eru mörg hörkugóð lið inni á milli í deildinni. Í þessari átta liða deild eru sennilega fjögur eða fimm lið sem ætla sér stóra hluti og við getum ekki ætlast til þess að þetta verði auðvelt, við verðum bara að berjast fyrir þessu.“

„Við höfum verið óheppin í síðustu leikjum og höfum í rauninni tapað tveimur leikjum með einu marki svo við erum nálægt þessu,“ sagði Halldór Harri í samtali við mbl í kvöld.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert