Leið ekki eins og við myndum vinna

Hrafnhildur Ósk Skúladóttir og lið ÍBV töpuðu sínum fyrsta leik …
Hrafnhildur Ósk Skúladóttir og lið ÍBV töpuðu sínum fyrsta leik í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

„Það var svo margt að, vörn, sókn og hraðaupphlaup,“ sagði Hrafnhildur Skúladóttir þjálfari ÍBV aðspurð hvað hefði mátt betur fara þegar liðið tapaði fyrir Fram í fimmtu umferð Olís-deildarinnar í kvöld.
„Æfingarnar fyrir leik voru erfiðar þar sem við vorum með nokkrar tæpar en svo vorum við ekki eins sterkar andlega og við erum búnar að vera.“

ÍBV náði að minnka muninn í tvö mörk en Fram vann 33:30.

„Maður hélt að við værum að fara að koma til baka en svo náðum við aldrei að minnka muninn í meira en tvö mörk. Mér leið ekki í seinni hálfleik eins og við myndum vinna og það vantaði bara sjálfstraust. Við erum búnar að vera mjög sterkar andlega það sem af er tímabili svo það kom mér á óvart að við vorum ekki grimmari þegar við áttum möguleika á að ná þeim.“

Þetta var fyrsta tap Eyjaliðsins á tímabilinu, en það situr í þriðja sæti með sjö stig, tveimur stigum á eftir toppliði Vals.

„Okkar markmið eru að vera í efstu fjórum sætunum þegar tímabilinu fer að ljúka og komast inn í úrslitakeppnina og við settum okkur það markmið fyrir mótið. Það skiptir miklu að koma sér þangað enda þá byrjar aðal mótið,“ sagði Hrafnhildur að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert