Lífið getur verið ósanngjarnt stundum

Þorgeir Bjarki Davíðsson spilar ekki meira á leiktíðinni.
Þorgeir Bjarki Davíðsson spilar ekki meira á leiktíðinni. mbl.is/Golli

„Þetta er hrikalegur skellur eftir góðan endi á síðasta tímabili þar sem ég fékk svo tækifæri með U21 árs landsliðinu í sumar," sagði Þorgeir Bjarki Davíðsson, hægri hornamaður Fram, í samtali við mbl.is í dag. Þorgeir varð fyrir því óláni að slíta krossband í hné í leik gegn Haukum fyrr í mánuðinum og verður hann frá keppni þangað til á næstu leiktíð. Þorgeir átti gott tímabil með Fram á síðustu leiktíð, liðið komst óvænt alla leið í undanúrslit Íslandsmótsins og var honum verðlaunað með sæti í U21 árs landsliðinu sem spilaði á HM í Alsír í sumar. 

Vikan er búin að vera ansi erfið hjá Þorgeiri því hann lenti í hörðu bílslysi fyrr í vikunni. Hann ætlar sér að jafna sig á meiðslunum og koma enn sterkari til baka. 

Kem fáránlega sterkur til baka

„Það hjálpaði ekki að ég lenti í hörðu bílslysi fyrr í vikunni og ég er laskaður í hálsi og baki eftir það. Þetta er búið að vera erfið vika og þetta er ný áskorum fyrir mig og veturinn er að mótast öðruvísi en ég hélt upprunalega. Það mun ekki laga stöðuna neitt að væla mikið yfir þessu, ég er strax byrjaður að æfa fyrir þetta og ég fer í aðgerð í byrjun nóvember. Það verður tekið á þessu, ég er með stuðning frá öllum í Fram og ég er með stuðning frá fjölskyldu og vinum, hann er ómetanlegur. Það verður tekið á þessu og ég kem fáránlega sterkur inn á næsta tímabili."

„Allt þetta tímabil er farið og ég kem inn á næsta tímabili. Það er erfitt að segja hvenær ég kem til baka en ég ætla ekki að taka neina óþarfa sénsa og auka hættuna á að þetta geti komið fyrir aftur. Ég mun æfa og styrkja hnéð á þessu tímabili og reyni að koma sterkur á undirbúningstímabilið næsta haust."

Eins og áður segir meiddist hann í leik gegn Haukum og er hann með rifinn liðþófa og slitið krossband, en meiðslin eru með þeim verstu sem íþróttamenn lenda í. 

„Ég fékk yfirspennu í hnéð á æfingu föstudaginn fyrir leikinn gegn Haukum. Síðan í leiknum var ég orðinn góður en þegar ég tók hliðarskref kom slinkur á hnéð og brak í hnénu sem á að hafa verið lokahöggið. Sjúkraþjálfarinn hélt fyrst að þetta væri liðþófinn sem væri rifinn og að krossbandið væri í lagi en svo fór ég og hitti bæklunarlækni og hann var handviss um að þetta væri slitið krossband. Myndatakan staðfesti að ég væri með slitið krossband og rif í liðþófanum. Lífið getur stundum verið ósanngjarnt en maður verður að taka svona með bringuna út og koma sterkari til baka," sagði Þorgeir að lokum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert