Ber sterkar taugar til Hauka

Patrekur Jóhannesson, þjálfari Selfyssinga.
Patrekur Jóhannesson, þjálfari Selfyssinga. mbl.is/Ómar Óskarsson

Patrekur Jóhannesson, þjálfari Selfoss, var að vonum ánægður með 24:23-sigur sinna manna á Haukum í Olísdeild karla í handbolta í kvöld. Selfoss var mest sex mörkum undir en með frábærum seinni hálfleik tókst Selfyssingum að komast yfir og tryggja sér sigur í lokin. 

„Við lögðum mikla vinnu í varnarleikinn í undirbúningnum fyrir þennan leik og ég var ánægður með hann. Hinum megin var Bjöggi frábær, við vorum að koma okkur í færi en hann varði allt. Menn misstu aðeins sjálfstraustið í fyrri hálfleik.“

„Staðan var 13:8 í hálfleik og ég sagði við strákana að halda áfram að gefa allt í þetta. Þegar feimnin var farin af mönnum fórum við í árásirnar og aðgerðirnar eins og við ætluðum að gera, þá fór þetta að ganga.“

Heimir Óli Heimisson, leikmaður Hauka, sagði í samtali við mbl.is að Haukar hafi verið kærulausir í seinni hálfleik. Patrekur sagðist ekki hafa tekið sérstaklega eftir því. 

„Ég var ekki að spá í Haukana, ég gerði það á árum áður þegar ég þjálfaði þá en ég var að einbeita mér að mínum mönnum. Það var ekkert kæruleysi hjá okkur, bara samstaða og trú.“

Ungt lið Selfyssinga gerði gríðarlega vel í að vinna æsispennandi leik gegn einu sterkasta liði landsins á útivelli. 

„Ef maður horfir á hvenær menn eru fæddir er það frábært. Á móti reynslumiklu sterku liði með landsliðsmarkmann, að vinna hér er eitthvað sem ekki mörg lið gera. Ég ber sterkar taugar til Hauka, ég er ánægður með að vinna núna en ég vona að Haukarnir vinni næsta leik.“

Halldór Ingi Jónasson fékk gott færi til að jafna fyrir Hauka í blálokin en hann skaut í stöng. 

„Ungi strákurinn hjá Haukum hefði alveg getað skorað en hann klikkaði, það datt með okkur þannig en við unnum fyrir þeirri heppni með því að gefast ekki upp. Menn hengdu haus á tímabili í fyrri hálfleik en allir voru með kassann út í seinni hálfleik,“ sagði Patrekur að endingu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert