Fyrsti sigur Aftureldingar í höfn

Gunnar Malmquist og Nökkvi Dan Elliðason í baráttunni í dag.
Gunnar Malmquist og Nökkvi Dan Elliðason í baráttunni í dag. mbl.is/Golli

Afturelding vann sinn fyrsta sigur í Olísdeildar karla þegar liðið lagði Gróttu að velli, 29:25 í sjöundu umferð deildarinnar í Hertz-höllinni i dag. Leikurinn var jafn á öllum tölum, en liðin skiptust á að hafa forystuna í leiknum og aldrei munaði meiru en þremur mörkum á liðunum.

Afturelding spilaði þétta vörn síðustu tíu mínútur leiksins og Lárus Helgi Ólafsson varði nokkur skot á mikilvægum augnablikum í leiknum. Leikmenn Aftureldingar nýttu færi sín betur á lokakafla leiksins og það skilaði liðinu sigrinum. 

Birkir Benediktsson var markahæstur í liði Aftureldingar með níu mörk og Mikk Pinnonen kom næstu með átta mörk. Maximilian Jónsson var einu sinni sem oftar atkvæðamestur hjá Gróttu en hann skoraði sjö mörk í leiknum. 

Lárus Helgi Ólafsson varði 11 skot í marki Aftureldingar og Kolbeinn Aron Ingibjargarson varði eitt skot. Hreiðar Levý Guðmundsson varði hins vegar 13 skot í marki Gróttu.

Afturelding hefur þrjú stig eftir þennan sigur, en Mosfellingar fóru fyrir Víking og Fjölni og liðið situr í níunda sæti deildarinnar. 

Fjölnir og Víkingur geta þó farið aftur upp fyrir Aftureldingu með sigrum í leikjum sínum í kvöld. Víkingur er að leika við Fram þessa stundina og Fjölnir mætir Stjörnunni klukkan 20.00 í kvöld. Grótta er hins vegar enn án stiga á botni deildarinnar.  

Grótta 25:29 Afturelding opna loka
60. mín. Leik lokið Leik lokið með 29:25-sigri Aftureldingar.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert