Aron orðinn leikmaður Barcelona

Aron Pálmarsson.
Aron Pálmarsson. Ljósmynd/Barcelona

Aron Pálmarsson er orðinn leikmaður spænska stórliðsins Barcelona og hefur samið við félagið til fjögurra ára eða til ársins 2021.

Aron kemur til Barcelona frá ungverska meistaraliðinu Veszprém en hann hef­ur ekki verið inni í mynd­inni hjá fé­lag­inu á þessu tímabili eft­ir ósætti í byrj­un leiktíðar. Aron gekk í raðir Veszprém sumarið 2015 eftir að hafa spilað með þýska liðinu Kiel undir stjórn Alfreðs Gíslasonar frá árinu 2010.

Aron er strax orðinn löglegur með Barelona og spilar væntanlega sinn fyrsta leik með liðinu 4. nóvember þegar Barcelona mætir Zagreb í Meistaradeildinni.

Aron er 27 ára gamall uppalinn FH-ingur sem fór aðeins 19 ára gamall til Kiel. Hann lék í sex ár með þýska liðinu þar sem hann vann þýska meistaratitilinn fimm sinnum og varð tvívegis Evrópumeistari með því. Hann lék tvö tímabil með Veszprém og varð meistari með liðinu bæði tímabilin.

Aron verður þriðji íslenski handboltamaðurinn sem spilar með Barcelona. Viggó Sigurðsson varð meistari með liðinu árið 1980 og Guðjón Valur Sigurðsson lék með Katalóníuliðinu frá 2014-16.

Bacelona hefur haft mikla yfirburði á Spáni undanfarin ár. Liðið hefur hampað spænska meistaratitlinum síðastliðið sjö ár og hefur spilað 128 leiki í röð í deildinni án ósigurs. Barcelona hefur unnið meistaratitilinn 24 sinnum, bikarkeppnina 21 sinnum og Evrópumeistaratitilinn 9 sinnum síðast árið 2015.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert