„Þeir tóku vel á okkur“

Arnar Pétursson, þjálfari ÍBV.
Arnar Pétursson, þjálfari ÍBV. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

„Ég er mjög sáttur. Við vissum ekkert hvað við vorum að koma út í hérna. Við mættum líkamlega sterku liði og spiluðum bara vel í dag og unnum sanngjarnt,“ sagði Arnar Pétursson, þjálfari karlaliðs ÍBV, eftir 31:27 sigur liðsins á Gomel frá Hvíta-Rússlandi í Áskorendabikar Evrópu í handknattleik en leikurinn fór fram í borginni Zhlobin sem er í þriggja klukkustunda akstursfjarlægð frá Minsk.

Spurður um mótherjann sagði Arnar: „Þeir spiluðu bæði 6:0 og 5:1 vörn. Sóknarlega voru þeir hreyfanlegir og flottir fannst mér en við komum þeim svolítið á óvart,“ sagði Arnar við mbl.is.

„Við fengum góða markvörslu frá Stephen og spiluðum bara heilt yfir mjög fínan leik,“ sagði Arnar.

Eyjamenn renndu nokkuð blint í sjóinn í dag og höfðu aðeins séð örfáar klippur frá leik liðsins gegn franska liðinu Brest.

Stephen Nielsen var öflugur í dag.
Stephen Nielsen var öflugur í dag. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

„Ég bjóst svo sem við öllu. Við vorum aðeins búnir að sjá þá á móti Brest en það var kannski ekki mjög marktækt. En þeir gerðu einhver 19 mörk á þá þannig að þeir geta spilað ágætisbolta. Hvort þeir voru veikari eða sterkari en við bjuggumst við veit ég ekki en þeir voru líkamlega sterkir og tóku vel á okkur,“ sagði Arnar.

Eyjamenn lentu 3:0 undir og segir Arnar aðspurður að ferðalagið frá Vestmannaeyjum til Hvíta-Rússlands hafi eflaust aðeins setið í mönnum.

„Það sat aðeins í mönnum kannski en við vorum líka aðeins að átta okkur á þeim. Þeir voru að koma á móti okkur í 5:1 til að byrja með og voru mjög hreyfanlegir og skemmtilegir í sókninni. Eins líka þá sat ferðalagið aðeins í okkur,“ sagði Arnar en nú tekur við langt og strangt ferðalag heim til Íslands.

„Það hefst í nótt kl. 2 og við náum sem betur fer alla leið til Eyja á morgun en langt og strangt verður það,“ sagði Arnar að endingu en liðin mætast að nýju í Eyjum eftir viku.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert