Afturelding í 16-liða úrslitin

Árni Bragi Eyjólfsson skoraði 11 mörk fyrir Aftureldingu.
Árni Bragi Eyjólfsson skoraði 11 mörk fyrir Aftureldingu. mbl.is/Golli

Afturelding sigraði ÍBV 2 í Coca-Cola-bikar karla í handknattleik í kvöld þegar liðin mættust í Vestmannaeyjum. Leiknum lauk með stórsigri Mosfellinga, 39:23. Staðan í hálfleik var 22:9 gestunum í vil.

Mosfellingar eru því komnir áfram í 16-liða úrslitin sem fara fram á næstu vikum.

Sigurður Bragason var markahæstur Eyjamanna en hann skoraði 10 mörk í leiknum og sýndi að hann á helling eftir, Sigurður þjálfar ÍBV í Olís-deild karla og er einn besti handknattleiksmaður sem eyjan hefur alið. Brynjar Karl Óskarsson var einnig drjúgur en hann skoraði fjögur mörk.

Hjá gestunum var Árni Bragi Eyjólfsson með flest mörk en hann skoraði heil 11 mörk, Bjarki Kristinsson átti einnig mjög góðan leik hjá gestunum en hann skoraði 6 mörk.

Markverðir liðanna voru nokkuð góðir en þeir eru báðir Eyjamenn. Páll Eiríksson, 16 ára strákur, varði 15 skot í marki ÍBV. Þá varði Kolbeinn Aron Arnarson 21 skot í marki gestanna, flest þeirra í fyrri hálfleik.

Davíð Þór Óskarsson og Sæþór Garðarsson fengu báðir að líta rauða spjaldið hjá ÍBV eftir þrjár tveggja mínútna brottvísanir, leikurinn var harður og tóku leikmenn beggja liða á mótherjum sínum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert