Riðill Íslands ekki færður frá Split

Geir Sveinsson, landsliðsþjálfari í handknattleik karla.
Geir Sveinsson, landsliðsþjálfari í handknattleik karla. mbl.is/Golli

Leikir íslenska landsliðsins á Evrópumótinu í handknattleik karla í janúar munu fara fram í Split í Króatíu eins og upphaflega var gert ráð fyrir, þrátt fyrir að keppnishöllin sé ekki tilbúin eftir betrumbætur.

Eins og mbl.is greindi frá í gær var möguleik á því að riðill Íslands yrði færður frá Split til Osijek og þá var miðasölu hætt á leiki riðilsins vegna óvissunnar.

Evrópska handknattleikssambandið hefur hins vegar tekið af allan vafa um þetta og segir JJ Rowland, fjölmiðlafulltrúi EHF, að engin breyting verði á leikstað riðilsins.

„Ég hef heyrt af þessum fréttum en ég get fullvissað þig um að engin breyting verður á leikstað A-riðils á EM. Riðillinn verður leikinn í Split og Spaladium-höllinni. Samkvæmt mínum upplýsingum verður skrifað undir alla nauðsynlega samninga þar að lútandi fyrir lok vikunnar,“ sagði hann við Rúv.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert