„Versti mánuður á handboltaferlinum“

Alexander Petersson og Guðjón Valur Sigurðsson á sigurstundu.
Alexander Petersson og Guðjón Valur Sigurðsson á sigurstundu. Ljósmynd/Rhein-neckar Löwen

Þýska meistaraliðið Rhein-Neckar Löwen, sem þeir Guðjón Valur Sigurðsson og Alexander Petersson leika með, spilar í kvöld níunda leik sinn í röð á útivelli þegar liðið mætir Göppingen í þýsku 1. deildinni í handbolta.

„Ef ég á að vera heiðarlegur þá hefur þessi nóvember mánuður ekki verið skemmtilegur og er versti mánuður á handboltaferli mínum,“ segir Nikolaj Jacobsen, þjálfari Rhein-Neckar Löwen, en í þeim átta leikjum sem Löwen hefur spilað í röð á útivelli hefur liðinu tekist að vinna sex þeirra.

„Þetta hefur verið afar erfitt prógramm hjá okkur en það er gott að vita til þess að þurfum ekki að ferðast langt til að mæta Göppingen,“ segir Jacobsen en Göppingen er í 175 kílómetra fjarlægð frá Mannheim.

Í útileikjunum átta sem Löwen hefur spilað í röð hefur liðið til að mynda spilað í Meistaradeildinni í Skopje í Makedóníu og í Barcelona en fyrir leikinn gegn Barcelona lék Löwen deildarleik sólarhring áður.

Löwen er í eldlínunni á þremur vígstöðvum, í deildinni þar sem liðið er í 3. sæti, í bikarkeppninni þar sem Löwen er komið í átta liða úrslit og í Meistaradeildinni þar sem liðið er í 2. sæti í sínum riðli.

„Fyrir tímabilið þá hélt ég að við myndum vera úr leik í baráttunni um titilinn í nóvember en við erum í góðri stöðu í öllum keppnum en ég vona þetta gerist ekki aftur,“ segir Jacobsen, sem tók við þjálfun Löwen af Guðmundi Þórði Guðmundssyni árið 2014 og þá hefur hann stýrt danska karlalandsliðinu frá því í mars á þessu ári þegar hann tók við því að áðurnefndum Guðmundi Þórði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert