Þetta var þvílík spenna í lokin

Sturla Ásgeirsson
Sturla Ásgeirsson mbl.is/Hari

Sturla Ásgeirsson, spilandi þjálfari ÍR, upplifði blendnar tilfinningar eftir 26:26-jafnteflið við Gróttu í Olísdeild karla í handbolta í kvöld. Grótta var mest fjórum mörkum yfir í seinni hálfleik en ÍR átti fínan möguleika á að vinna leikinn undir lokin.

„Ég er pínu svekktur því við vorum með boltann í síðustu sókn og hefðum getað gert betur en ef maður lítur á leikinn í heild sinni, þá vorum við að elta allan leikinn og vorum komnir fjórum mörkum undir í seinni hálfleik. Við komumst aftur inn í leikinn og áttum möguleika á að vinna, þá er ég sáttur við eitt stigið."

ÍR gekk ansi illa að skora sitt fyrsta mark í seinni hálfleik. Það fyrsta kom eftir tæpar tíu mínútur, en eftir það var sóknarleikur liðsins fínn. 

„Þetta eru tvö áþekk lið og Gróttumenn voru að halda okkur í skefjum. Hreiðar tók nokkur dauðafæri í byrjun seinni hálfleiks. Svo kom þetta hjá okkur og þeir gera mistök og þannig var það á báða bóga og það var þvílík spenna í lokin."

ÍR var með boltann þegar örfáar sekúndur voru eftir en náði ekki að koma skoti á markið. 

„Það var ákaflega svekkjandi að ná ekki að enda þetta með skoti og þá var hætta að fá á sig mark á allra síðustu sekúndunum," sagði Sturla að endingu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert