Töpuðum með tólf mörkum í 2. umferð

Kári Garðarsson.
Kári Garðarsson. mbl.is/Hari

„Þetta er bæði og," sagði Kári Garðarsson er blaðamaður mbl.is spurði hvort hann væri svekktur eða sáttur við 26:26-jafntefli við ÍR á útivelli í Olísdeild karla í handbolta í kvöld.

„Miðað við að vera 21:17 yfir og eiga möguleika á að ná fimm marka mun og jafnvel gera út um leikinn, þá erum við klaufar að hleypa ÍR-ingunum í þetta. Við erum einu marki undir þegar lítið er eftir en jafnteflið er af einhverju leyti sanngjarnt."

Grótta byrjaði seinni hálfleikinn gríðarlega vel og náði fjögurra marka forystu. ÍR-ingar voru hins vegar nokkuð fljótir að vinna þann mun upp. 

„Þeir fara að reyna að brjóta upp leikinn og fara í sjö í sex. Svo missum við mann út af og fáum á okkur tvö mörk þegar enginn er í marki og það var dýrt. Við fáum svo færi í lokin sem geta farið langleiðina með að gefa okkur tvo punkta en við tökum þessum eina punkti."

Kári er ánægður með betri leik sinna manna eftir því sem liðið hefur á tímabilið. 

„Við töpuðum gegn ÍR með tólf mörkum í 2. umferðinni, það þarf ekki að leita lengra. Spilamennskan hjá mínum mönnum er að verða betri og betri. Þetta stig gæti verið mikilvægt þegar við teljum upp úr kössunum í lok vetrar," sagði Kári Garðarsson. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert