Enginn deildabikar – „Ákveðin tímaskekkja“

FH-ingar eru ríkjandi deildabikarmeistarar karla.
FH-ingar eru ríkjandi deildabikarmeistarar karla. mbl.is/Ófeigur

Sú „jólahefð“ að leikið sé í deildabikarkeppni í handbolta hér á landi á milli jóla og nýárs hefur verið afnumin. Líklega verður ekki keppt í deildabikar á þessari leiktíð og óvissa ríkir um framtíð keppninnar.

Róbert Geir Gíslason, framkvæmdastjóri HSÍ, staðfesti þetta við mbl.is í dag. Sagði hann þetta hafa verið ákveðið á formannafundi handknattleiksfélaganna fyrir hálfum mánuði og staðfest á stjórnarfundi HSÍ í síðustu viku.

Síðustu ár hafa fjögur efstu lið Olís-deild kvenna og karla leikið í fjögurra liða deildabikarkeppni á milli jóla og nýárs. FH er ríkjandi deildabikarmeistari karla og Fram deildabikarmeistari kvenna, og svo gæti farið að þessi lið haldi þeim titli um langa framtíð.

„Meginrökin fyrir þessari breytingu eru að þetta fyrirkomulag var orðin ákveðin tímaskekkja. Stórmót karlalandsliðanna í janúar eru farin að byrja fyrr en áður, landsliðið okkar byrjar að æfa 28. desember, sem þýðir að landsliðsmenn standa félögunum ekki til boða í deildabikar. Á milli jóla og nýárs hefur U18-landslið karla einnig verið erlendis á móti undanfarin ár, svo það hefur vantað talsvert af leikmönnum. Þar að auki er ekkert hlé núna í Olís-deild kvenna, eins og verið hefur undanfarin ár, svo þær eru að spila í deildinni í desember og janúar. Þörfin á þessu móti er því ekki sú sama og áður,“ segir Róbert.

Aðspurður hvort dagar deildabikarsins séu taldir eða hvort að á næstu leiktíð verði mótið hugsanlega haldið áður en keppni á Íslandsmótinu hefst, segir Róbert: „Það verður væntanlega skoðað á formannafundi í febrúar hvaða leiðir eru færar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert