Fram stakk af í síðari hálfleik

Elísabet Gunnarsdóttir skýtur að marki Selfoss í kvöld. Kristrún Steinþórs …
Elísabet Gunnarsdóttir skýtur að marki Selfoss í kvöld. Kristrún Steinþórs fylgist með. mbl.is/Hari

Framarar unnu sannfærandi og sanngjarnan 28:20 sigur á Selfossi í 10. umferð Olísdeildar kvenna í handknattleik í Framhúsinu í kvöld. Bæði lið spiluðu á laugardaginn var en Framarar rótburstuðu Fjölni á meðan Selfyssingar steinlágu fyrir ÍBV.

Það virtist ekkert burst vera á teningnum í upphafi kvöldsins, jafnræði var með liðunum í fyrri hálfleik og var munurinn aldrei meiri en tvö mörk. Frömurum gekk illa að eiga við Kristrúnu Steinþórsdóttur sem skoraði að vild en hinumegin náðu Selfyssingar sjaldnast að loka á Elísabetu Gunnarsdóttir á línunni en hún skoraði fimm marka Framara fyrir hálfleik, staðan 12:13, Selfyssingum í vil.

Eitthvað hefur Stefán Arnarson, þjálfari Fram, tekið leikmenn sína til bæna inn í búningsklefa því meistararnir hófu síðari hálfleikinn af gífurlegum krafti og skoruðu fyrstu fimm mörk hans til að ná fjögurra marka forystu. Selfyssingar reyndu að klóra í bakkann í kjölfarið en allt kom fyrir ekki og Framarar héldu góðu forskoti út leikinn. Elísabet átti stórleik á línunni og skoraði átta mörk alls og fengu Framarar einnig mörg hraðaupphlaup sem hin eldsnögga Þórey Rósa Stefánsdóttir nýtti oftar en ekki, var hún með sex mörk í kvöld.

Með sigrinum fara Framarar aftur í þriðja sætið, upp fyrir ÍBV, og eru nú með 14 stig, fjórum stigum frá toppliði Vals. Selfyssingar eru áfram í 6. sæti með fimm stig.

Fram 28:20 Selfoss opna loka
60. mín. Selfoss tekur leikhlé
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert