Gagnlegt að sjá betur hvað má lemja þá fast

Dagur Sigurðsson á Hlíðarenda í gær.
Dagur Sigurðsson á Hlíðarenda í gær. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Það er rosalega skrýtið að hugsa til þess að við mætum Íslandi 3. janúar og ég geri mér í raun enga grein fyrir því hvar við erum staddir. Hvort við erum að fara að tapa með 15 mörkum eða jafnvel vinna með einu,“ segir Dagur Sigurðsson, maðurinn sem Japanir réðu til að stýra karlalandsliði sínu í handbolta fram yfir Ólympíuleikana í Tókýó 2020.

Dagur leggur þungt próf fyrir lærisveina sína í Laugardalshöll 3. janúar, þegar Ísland mætir Japan í einum af síðustu leikjum sínum fyrir Evrópumótið í Króatíu. Leikurinn er að sama skapi liður í undirbúningi Dags og hans manna fyrir Asíumótið sem hefst í Suður-Kóreu 18. janúar, þar sem Dagur stefnir á eitt af fjórum efstu sætunum en með því kæmist Japan á HM 2019.

Það kom mörgum á óvart að Dagur skyldi ákveða að taka við Japan, eftir að hafa náð mögnuðum árangri á síðasta ári þegar hann gerði Þýskaland að Evrópumeistara og stýrði liðinu einnig til bronsverðlauna á Ólympíuleikunum í Ríó. Dagur hefur hins vegar sterka taug til Japans, hefur viðhaldið henni alla þessa öld, og var spenntur fyrir því að beina í rétta átt landsliði sem lítt hefur afrekað á Ólympíuleikum eða heimsmeistaramótum en verið í hópi þeirra bestu í sinni heimsálfu. Eins og fyrr segir renndi Dagur, og rennir enn, nokkuð blint í sjóinn hvað getu japanska liðsins varðar:

„Þetta snýst nefnilega ekki bara um handboltalega getu og hvað maður sér á æfingum. Ég veit bara ekki hvernig þeir bregðast við í alvöruleik. Það er töluvert mikið reynsluleysi í hópnum varðandi svona leiki eins og við fáum gegn Íslandi. Við höfum reynt að vinna með þetta og ég kom með þá til Íslands síðasta sumar þar sem þeir spiluðu sjö leiki á tíu dögum við félagslið hérna. Svo hef ég fengið leikmenn frá Íslandi á æfingar hjá okkur í Japan, allt til þess að leikmennirnir mínir venjist ólíkum aðstæðum og maður sjái hvernig þeir eiga við nýja andstæðinga, hvað má lemja fast í þá og allt þetta,“ segir Dagur og kímir, þar sem hann ræðir málin við mig á stað sem hann þekkir býsna vel; Valshöllinni á Hlíðarenda.

Sjá ítarlegt viðtal við Dag í heild sinni í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert