Þórir mætir Trefilov í kvöld

Þórir Hergeirsson
Þórir Hergeirsson AFP

Þórir Hergeirsson verður í eldlínunni á HM kvenna í handknattleik í kvöld þegar Noregur mætir Rússlandi. Heims- og Evrópumeistarar mæta þar Ólympíumeisturunum í sannkölluðum stórleik. 

Leikurinn er liður í 8-liða úrslitum keppninnar og liðið sem vinnur spilar því um verðlaun á HM. Noregur sló Spán út í 16-liða úrslitum en Rússland hafði betur gegn Suður-Kóreu eftir framlengdan leik. 

Þótt norska liðið sé geysilega öflugt undir stjórn Þóris þá verður leikurinn í kvöld væntanlega erfiður því Rússland vann Noreg í undanúrslitum á ÓL í Ríó í fyrra og nældi í gullverðlaunin en Noregur fékk þá bronsverðlaun. 

Þjálfari Rússa er hinn litríki Jevgeni Trefilov sem náð hefur miklum árangri með rússneska liðið í gegnum árin. Trefilow er mörgum íslenskum handboltaunnendum minnisstæður frá því Ísland og Rússland mættust á EM í Danmörku 2010. 

Leikurinn fer fram í Magdeburg og hefst klukkan 19:30 að íslenskum tíma. 

Jevgeni Trefilov á hliðarlínunni á HM.
Jevgeni Trefilov á hliðarlínunni á HM. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert