Sigurinn skipti öllu máli

Gunnar Magnússon, þjálfari Hauka, ræðir við sína menn í leiknum …
Gunnar Magnússon, þjálfari Hauka, ræðir við sína menn í leiknum í kvöld. mbl.is/Hari

„Það skiptir öllu máli að komast áfram í bikarkeppninni. Þetta var leikur sem við urðum að vinna,“ sagði Gunnar Magnússon, þjálfari Hauka, sigurreifur eftir sigurinn á ÍR, 25:23, í 16-liða úrslitum Coca Cola-bikarsins í handknattleik karla í Schenker-höllinni á Ásvöllum í kvöld.

„Ég er ánægður með sigurinn, varnarleikinn og einnig markvörsluna. Sóknarleikurinn var stirður á köflum en við skoruðum þó 25 mörk sem dugði,“ sagði Gunnar og bætti því við að Daníel Þór Ingason glímdi við meiðsli þótt hann hafi tekið þátt í leiknum auk þess sem Adam Haukur Baumruk á enn talsvert í land með að vera kominn í fyrra leikform eftir veikindi.

„Við vorum með frumkvæðið nánast frá upphafi og það var virkilega jákvætt að sama hvað gekk á þá náðum við að halda frumkvæðinu til enda leiksins.  ÍR-ingar voru seigir og gáfust aldrei upp.“

Gunnar sagðist vera ánægður með stórleik Björgvin Páls í marki Hauka. „Báðir markverðirnir áttu stórleik. Það var virkilega gaman að sjá tvo Haukamarkverði fara á kostum hér í kvöld,“ sagði Gunnar en Grétar Ari Guðjónsson, markvörður ÍR, er í láni hjá liðinu í vetur frá Haukum.

„Eftir erfiðleika í leikmannahópnum síðustu vikur og mánuði þá er ég afar ánægður með að vera kominn á þennan stað, það er í átta liða úrslit í bikarnum. Vonandi verður betra ástand á leikmannahópnum þegar við leikum í næstu umferð á nýju ári," sagði Gunnar Magnússon, þjálfari Hauka. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert