Erum mjög svekkt

Þórir Hergeirsson á hliðarlínunni í úrslitaleiknum í dag.
Þórir Hergeirsson á hliðarlínunni í úrslitaleiknum í dag. AFP

„Frakkarnir voru fljótir að hlaupa til baka en við vorum líka búin að rífa í handbremsuna og slepptum henni aldrei þrátt fyrir að hafa talað um það í hálfleik,“ sagði Þórir Hergeirsson, landsliðsþjálfari norska kvennalandsliðsins í handknattleik, eftir 23:21-tap gegn Frökkum í úrslitaleik heimsmeistaramótsins í Þýskalandi.

„Þeir voru fyrst og fremst með öflugri markvörslu. Við fáum aldrei markvörsluna hjá okkur í gang. Þetta var langt undir því sem við höfum sýnt á mótinu. Vörnin var góð en okkur vantaði markvörslu í þeim gæðum sem við höfum haft áður. Auk þess vantaði okkur betri skot fyrir utan - og við skoruðum heldur ekki úr mörgum vítaköstum,“ sagði Þórir en norsku markverðirnir vörðu ekki skot í síðari hálfleik. Kari Aalvik Grimsbø var með 17% markvörslu, Katrine Lunde 13% og Silje Solberg 0%. Þær norsku klúðruðu enn fremur fjórum vítaköstum í leiknum.

„Ég er svekktur yfir því að hafa tapað úrslitaleiknum. Við komum auga á nokkra af veikleikum franska liðsins, en þegar við eigum ekki góðan dag í markinu okkar og góð skot frá miðjumönnum okkar, þá er það klárt að það eru margir sem geta unnið okkur,“ sagði Þórir við TV2 eftir leikinn.

„Við unnum silfur á þessu móti. Það var mjög gott en við þurfum nú að skoða hlutina og sjá hvort það er nokkuð jákvætt sem við getum tekið út úr þessu. Það er klárt að við erum mjög svekkt núna en við töpuðum einfaldlega gegn betra liði,“ sagði Þórir Hergeirsson.

Þrátt fyrir tapið var norska liðið að leika sinn sjöunda úrslitaleik á stórmóti á átta árum sem er einstakur árangur. Norska landsliðið var auk þess ríkjandi heims- og Evrópumeistari fyrir leikinn í dag. Enn fremur hefur norska liðið frá árinu 2006 unnið til verðlauna á öllum stórmótum nema HM 2013, alls 12 verðlauna. Liðið hefur tvisvar orðið ólympíumeistari á þessum tíma, tvisvar heimsmeistari og fjórum sinnum Evrópumeistari.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert