Súrt að eiga góðan leik en fá ekki tvö stig

Aron Dagur Pálsson.
Aron Dagur Pálsson. mbl.is/Kristinn Magnússon

Aron Dagur Pálsson átti góðan leik fyrir Stjörnuna þegar liðið tapaði fyrir Aftureldingu 30:27 í Olís-deild karla í handknattleik í kvöld. Aron skoraði níu mörk en sagði að það væri skiljanlega ekki eins gaman þegar tvö stig fylgdu ekki með.

„Það er eiginlega bara alls ekki jafn skemmtilegt. Það er djöfulli súrt að eiga ágætan leik sjálfur en fá ekki tvö stig,“ sagði Aron Dagur við mbl.is. Stjarnan var undir lengst af í leiknum og þurfti að elta mikið.

„Við vorum að leka full mikið varnarlega allan leikinn og fengum litla markvörslu. Við vorum svo að klúðra dauðafærum og það er uppskrift að tapi. Svo hjálpar ekki til að menn eru meiddir hjá okkur og við spiluðum mikið á sömu mönnunum. Menn voru skiljanlega orðnir þreyttir en eiga samt að halda út í 60 mínútur, en það tók á að elta allan leikinn,“ sagði Aron.

Stjarnan á einn leik eftir á árinu þegar ÍBV kemur í heimsókn á fimmtudag, en deildin fer svo í frí þar til í lok janúar.

„Við ætlum okkur sigur á móti ÍBV og við þurfum á því að halda. Svo byrjar bara undirbúningstímabilið aftur. Fara í lyftingarnar og hlaupin aftur, það verður algjör snilld,“ sagði Aron Dagur og glotti við enda vilja menn heldur geta spriklað á vellinum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert