Ég ákvað að fara í kæruleysið

Óðinn Þór Ríkharðsson skoraði sigurmarkið í blálokin.
Óðinn Þór Ríkharðsson skoraði sigurmarkið í blálokin. mbl.is/Árni Sæberg

Óðinn Þór Ríkharðsson var hetja FH í 30:29-sigri á Haukum í Olísdeild karla í handbolta í kvöld. Hann skoraði sigurmarkið þegar ein sekúnda var til leiksloka með vippu yfir Björgvin Pál Gústavsson landsliðsmarkmann. 

„Þetta var geggjaður sigur. Við vorum ekkert spes í vörninni, það vantaði Arnar Frey sem er sterkur í vörn í sókn. Við spiluðum hins vegar góða sókn, án þess að fá mörg hraðaupphlaup. Við hefðum getað skotið betur á Bjögga, hann var að verja vel, t.d. frá mér og öðrum,“ sagði Óðinn við mbl.is í leikslok. 

Björgvin var búinn að fara nokkuð illa með Óðin og verja frá honum nokkrum sinnum úr góðum færum. 

„Ég var að búa til þessi úrslitaskot. Ég fæ boltann óvænt og henti í vippuna. Ég var búinn að vera lélegur á hann og ákvað að fara í kæruleysið. Nú fer maður glaður inn í jólin.“

Hornamaðurinn samdi við GOG í Danmörku á dögunum og fer hann eftir tímabilið. Hann ætlar að kveðja FH með stæl. 

„Þetta er frábært fyrir mig en þangað til ætla ég að gera mitt besta fyrir FH og ætla að kveðja með titli eða titlum,“ sagði Óðinn að lokum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert