Verða jólin hvít eða rauð í Firðinum?

Einar Rafn Eiðsson í baráttu við leikmenn Hauka.
Einar Rafn Eiðsson í baráttu við leikmenn Hauka. mbl.is/Styrmir Kári

Verða jólin hvít eða rauð í Hafnarfirði þetta árið? Úr því fæst skorið í kvöld þegar Hafnarfjarðarliðin FH og Haukar eigast við í Olís-deild karla í handknattleik í Kaplakrika.

FH-ingar tróna á toppi deildarinnar með 22 stig en Haukarnir eru í fimmta sæti deildarinnar með 17 stig. FH hafði betur þegar liðin áttust við Schenker-höllinni í september, 27:23, og Haukarnir ætla örugglega að ná fram hefndum í kvöld.

Mbl.is tók púlsinn á FH-ingnum Einari Rafni Eiðssyni og Haukamanninum Atla Má Bárusyni fyrir slaginn í kvöld en báðir reikna þeir með hörkuleik það sem ekkert verður gefið eftir frekar en áður þegar erkifjendurnir leiða saman hesta sína.

„Það er virkilega gaman að fá svona leik sem þann síðasta fyrir frí. Haukarnir eru búnir að vera í smá basli upp á síðkastið og þeir koma eflaust mjög grimmir til leiks. Við ætlum ekki að leyfa þeim að komast upp með neitt og við ætlum að fara í fríið í toppsæti deildarinnar og með Haukana vel fyrir aftan okkur.

Við munum leggja allt í sölurnar til að vinna leikinn og ég á ekki von á neinu öðru en að það verði hart tekist á og það kæmi mér ekki á óvart ef einhver rauð spjöld fari á loft. Það eru allir klárir í slaginn hjá okkur og jólin verða hvít í Firðinum þetta árið,“ sagði Einar Rafn Eiðsson, stórskyttan í liði FH í samtali við mbl.is.

Atli Már Báruson í baráttu við Arnar Frey Ársælsson.
Atli Már Báruson í baráttu við Arnar Frey Ársælsson. mbl.is/Atli Már Báruson

„Við viljum draga á efstu liðin og þá kemur ekkert annað til greina en að vinna sigur í Krikanum í kvöld. Það er meiri spenna í mönnum fyrir þennan leik og ég á von á hörkuleik og vonandi verður stuð og stemning á leiknum. Við erum ekki búnir að gleyma því að við töpuðum fyrir FH í byrjun tímabilsins og við ætlum að koma fram hefndum í kvöld.

Við gerum okkur grein fyrir því að FH-liðið er mjög gott og við þurfum að skila toppleik til að vinna það. Við þurfum að halda Gísla, Ásbirni og Einari Rafni í skefjum og reyna að halda hraðaupphlaupum þeirra í lágmarki. Við verðum að vera skynsamir í okkar sóknarleik og ná fram góðum varnarleik. Ef þessir hlutir verða í lagi þá getum við farið með sigur af hólmi. Ég á góðar minningar úr Krikanum,“ sagði Atli Már við mbl.is en hann varð Íslandsmeistari með Val á síðustu leiktíð þar sem Valur vann oddaleikinn á heimavelli FH-inga. Þorvarður Tjörvi Þorgeirsson er á sjúkralistanum hjá Haukum en allir aðrir eru tilbúnir í leikinn að sögn Atla.

Flautað verður til leiks í Kaplakrika klukkan 19.30 og verður fylgst með leiknum í beinni textalýsingu hér á mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert