Guðmundur og Dagur saman í milliriðli

Guðmundur Þ. Guðmundsson og Dagur Sigurðsson.
Guðmundur Þ. Guðmundsson og Dagur Sigurðsson. mbl.is/Golli

Guðmundur Guðmundsson, landsliðsþjálfari Barein, og Dagur Sigurðsson, landsliðsþjálfari Japan í handknattleik, munu mætast í milliriðlum Asíumótsins í handknattleik eftir úrslit dagsins.

Guðmundur og lærisveinar hans í karlalandsliði Barein unnu sinn riðil í morgun með því að leggja Óman að velli, 30:23. 

Eftir stóran sigur á Úsbekistan í fyrstu umferð biðu lærisveinar Dags Sigurðssonar í Japan lægri hlut gegn Íran, 37:32. Japanar eru þrátt fyrir ósigurinn komnir áfram en þeir lenda í 2. sæti A-riðils.

Þessi úrslit þýða að Dagur og Guðmundur munu enn á ný mætast með sínum liðum þar sem Japan og Barein verða saman í milliriðli ásamt Sameinuðu arabísku furstadæmunum og liðinu sem lendir í fyrsta sæti í D-riðli. Sádi-Arabía og Katar leika úrslitaleik í dag um 1. sætið.

Það verður í sjötta skiptið sem Dag­ur og Guðmund­ur etja kappi sem landsliðsþjálf­ar­ar en þeir mætt­ust einnig á dögunum í vináttulandsleik þar sem Barein vann eins marks sigur og einnig með sömu liðum um jólin. Þá vann Barein stór­sig­ur. Áður höfðu þeir mæst er Guðmund­ur stýrði liði Íslands gegn Aust­ur­ríki. Þá mætt­ust þeir einnig er Dag­ur þjálf­aði Þýska­land og Guðmund­ur Dan­mörku.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert