Stórtap hjá Degi en öruggt hjá Guðmundi

Guðmundur Þ. Guðmundsson og Dagur Sigurðsson.
Guðmundur Þ. Guðmundsson og Dagur Sigurðsson. mbl.is/Golli

Dagur Sigurðsson og Guðmundur Guðmundsson eru í eldlínunni með landslið sín í milliriðli Asíumótsins í handknattleik en áttu ólíku gengi að fagna í dag.

Japan, undir stjórn Dags, og Barein, undir stjórn Guðmundar, eru saman í milliriðli mótsins sem fram fer í Suður-Kóreu. Fyrsta umferð riðilsins fór fram í morgun og var uppskeran ansi ólík.

Japan mætti þá liði Katar og mátti sætta sig við stórtap, 40:23. Munurinn var þegar orðinn tíu mörk í hálfleik, 19:9, og áttu Japanar aldrei svör eftir hlé sem leiddi til 17 marka taps.

Barein mætti hins vegar Sameinuðu arabísku furstadæmunum og vann öruggan sigur, 28:22. Barein var þó aðeins tveimur mörkum yfir í hálfleik, 13:11, en hafði úthaldið eftir hlé og vann sex marka sigur.

Tvö af liðunum fjórum í riðlinum komast áfram í undanúrslit. Katar er með sterkasta lið riðilsins og búast má við því að Dagur og Guðmundur muni berjast sín á milli um hinn farseðilinn áfram í rimmu þeirra í lokaumferð riðilsins á miðvikudag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert