Dýrmætur sigur Selfyssinga

Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir er komin á fulla ferð með Selfyssingum …
Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir er komin á fulla ferð með Selfyssingum á ný og gerði 7 mörk í kvöld. mbl.is/Golli

Selfyssingar kræktu í afar dýrmæt stig í fallbaráttu Olísdeildar kvenna í handknattleik í kvöld þegar þeir sigruðu Gróttu, 20:16, á heimavelli sínum í Vallaskóla.

Staðan var 11:11 í hálfleik en Seltirningar náðu aðeins að skora fimm mörk í seinni hálfleiknum.

Selfoss er þá með 7 stig í sjötta sæti deildarinnar en Grótta og Fjölnir eru með 4 stig í tveimur neðstu sætunum þegar liðin hafa spilað 14 leiki af 21. Neðsta liðið fellur beint en næstneðsta liðið fer í umspil um áframhaldandi sæti í úrvalsdeildinni.

Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir er komin á fulla ferð með liði Selfoss eftir langa fjarveru vegna meiðsla og hún skoraði 7 mörk í kvöld.

Mörk Selfoss: Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir 7, Perla Ruth Albertsdóttir 6, Harpa Sólveig Brynjarsdóttir 4, Hulda Dís Þrastardóttir 2, Kristrún Steinþórsdóttir 1.

Mörk Gróttu: Elva  Björg Arnarsdóttir 6, Slavica Mrkikj 4, Þóra Guðný Arnarsdóttir 2, Lovísa Thompson 2, Emma Havin Sardarsdóttir 1, Guðrún Þorláksdóttir 1.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert