Alfreð tekur ekki við Þýskalandi

Christian Prokop verður áfram landsliðsþjálfari Þjóðverja.
Christian Prokop verður áfram landsliðsþjálfari Þjóðverja. AFP

Alfreð Gíslason tekur ekki við þýska landsliðinu í handbolta. Þýska handboltasambandið staðfesti það í dag að Christian Prokop verður áfram við stjórn liðsins, þrátt fyrir að það hafi valdið vonbrigðum á EM í Króatíu og hafnað í 9. sæti.

Stjórn þýska handboltasambandsins fundaði um framtíð Prokop og að lokum fór atkvæðagreiðsla hvort hann héldi áfram eða yrði leystur frá störfum. Meirihlutinn stjórnar kaus að Prokop yrði áfram þjálfari landsliðsþjálfari. Hann tók við af Degi Sigurðssyni fyrir ári síðan. Undir stjórn Dag vann þýska landsliðið Evrópumeistaramótið fyrir tveimur árum.

Dagur hafði sjálfur spáð því að Alfreð yrði næsti landsliðsþjálfari og í kjölfarið var Alfreð orðaður við starfið í þýskum fjölmiðlum. Prokop er hins vegar með samning við þýska sambandið til ársins 2022. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert