Eyjamenn til Rússlands

Theodór Sigurbjörnsson, hornamaðurinn knái í liði ÍBV.
Theodór Sigurbjörnsson, hornamaðurinn knái í liði ÍBV. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Eyjamenn mæta rússneska liðinu Krasnodar í 8-liða úrslitum í Áskorendakeppni Evrópu í handknattleik en dregið var til þeirra í höfuðstöðvum evrópska handknattleikssambandsins í Vín nú rétt í þessu. Þá var einnig dregið til undanúrslitanna.

Krasnodar er í 3. sæti í rússnesku úrvalsdeildinni með 22 stig eftir 16 leiki. Chekhovskiye Medvedi er efst með 27 stig og Spartak Moskva er í öðru sæti með 26 stig en á tvo leiki til góða. Í 16-liða úrslitunum sló Krasnodar lið Mostar frá Bosníu út, samanlagt, 67:57.

Sigurvegarinn í viðureign Krasnodar og ÍBV mætir sigurliðinu í leik rúmenska liðsins Potaissa Turda og norska liðsins Fyllingen. Valsmenn mættu Potaissa Turda í undanúrslitunum í keppninni í fyrra þar sem dómarar leiksins drógu taum rúmenska liðsins eins og frægt er orðið.

Drátturinn varð þessi:

Dynamo-Victor (Rússlandi) - Madeira Andebol (Portúgal)
Potaissa Turda (Rúmeníu) - Fyllingen (Noregi)
AEK Aþena (Grikklandi) - Berchem (Lúxemborg)
Krasnodar (Rússlandi) - ÍBV (Íslandi)

Leikirnir í átta liða úrslitunum fara fram helgina 24.-25. mars. ÍBV á fyrri leikinn í Rússlandi. Leikirnir í undanúrslitunum fara fram helgina á eftir og ef ÍBV slær rússneska liðið út í átta liða úrslitunum á liðið fyrri leikinn á heimavelli í undanúrslitunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert