Toppliðið stal stigunum í lokin

Topplið Vals vann magnaðan 26:25-sigur á Stjörnunni í Olísdeild kvenna í handbolta í kvöld. Valskonur voru undir allan leikinn, eða þar til 20 sekúndum fyrir leikslok þegar þær komust yfir í fyrsta skipti. Möguleikar Stjörnunnar á að komast í úrslitakeppnina eru nú úr sögunni.

Sóknarleikur beggja liða fór mjög hægt af stað og skoruðu þau aðeins eitt mark hvort á fyrstu átta mínútunum. Stjarnan var hins vegar á undan að finna vopnabúrið og nýta sér það til góðs. Þegar fyrri hálfleikur var rúmlega hálfnaður var staðan 10:6, Stjörnunni í vil. Munurinn varð síðan mestur nokkrum mínútum síðar, 15:10. Valskonur minnkuðu muninn í þrjú mörk og þannig var hann einmitt í hálfleik, 16:13. Valskonur komust aldrei yfir í fyrri hálfleiknum og var það helst slakri markvörslu og vörn að kenna.

Lina Rypdal og Chantel Pagel skiptu með sér mínútunum í marki Vals og vörðu þær samtals þrjú skot allan hálfleikinn. Þau hefðu átt að vera mun fleiri, þar sem oftar en einu sinni og oftar en tvisvar virtist boltinn hreinlega fara í gegnum þær. Ekki hjálpaði til að Pagel haltraði af velli stuttu fyrir lok fyrri hálfleiks.

Stjarnan byrjaði vel í seinni hálfleik og komst fljótlega aftur í fimm marka forystu, 20:15. Þá tóku Valskonur við sér og breyttu stöðunni í 21:20. Þá tók Halldór Harri, þjálfari Stjörnunnar, leikhlé og var staðan skömmu síðar 23:20. Sem fyrr gáfust Valskonur ekki upp og náðu þær að jafna í 23:23 og var staðan jöfn í fyrsta skipti síðan í 3:3. Eftir það var leikurinn jafn og spennandi, allt til loka. Anna Úrsúla Guðmundsdóttir kom Val yfir í fyrsta skipti í leiknum, 20 sekúndum fyrir leikslok og náði Stjarnan ekki að svara því.

Valur 26:25 Stjarnan opna loka
60. mín. Anna Úrsúla Guðmundsdóttir (Valur) skoraði mark 20 sekúndur eftir!
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert