Bikarinn er draumurinn

Viktor Gísli Hallgrímsson var öflugur í marki Fram í kvöld.
Viktor Gísli Hallgrímsson var öflugur í marki Fram í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

Viktor Gísli Hallgrímsson, markvörður Fram, var að vonum sáttur eftir frábæran 35:26-sigur á Gróttu í 18. umferð Olísdeildar karla í handknattleik í Hertz-höllinni í kvöld. Viktor var fyrst og fremst sáttur með bættan varnarleik liðsins en Framarar hafa nú unnið tvo í röð eftir að hafa tapað síðustu sjö deildarleikjum þar á undan. 

„Góður varnarleikur, loksins. Við höfum spilað ágæta vörn síðan í FH leiknum, þá small þetta saman og okkur hefur gengið vel. Ef við fáum á okkur 25-26 mörk þá vinnum við flest lið.“

Framarar voru í miklu basli lengst af í vetur en unnu svo frækinn bikarsigur á FH  nýlega, Viktor segir þann sigur hafa kveikt í sínum mönnum.

„Þetta var auðvitað orðið erfitt, að tapa svona. Svo vinnum við FH og þá fer sjálfstraustið upp í hundrað, núna verðum við að halda þessu áfram.“

Viktor átti frábæran leik í marki Fram, varði 14 sinnum og þar af oft úr dauðafærum en nokkrar marvörslurnar voru heldur skrautlegar.

„Þetta var mjög gaman, ég varði hann oft óvart og þetta var orðið dálítið skrítið en gaman engu að síður.“

Viktor segir liðið enn geta náð sæti í úrslitakeppninni en fyrst og fremst vilja Framarar vinna bikarinn, en þeir leika til undanúrslita í honum í næsta mánuði.

„Ef við höldum áfram að spila svona þá getum við gert hvað sem er en aðalmarkmiðið okkar er að komast í bikarinn, það er draumurinn og við gerum það sem við getum þar.“

Ef Framarar ætla að ná markmiðum sínum verða þeir þó að finna stöðugleika í spilamennsku sinni, en liðið hefur verið mikið ólíkindatól á undanförnum misserum.

„Það er rosalega mikilvægt að halda stöðugleikanum núna og fara ekki að missa hausinn. Nú þurfum við að halda sjálfstraustinu,“ sagði Viktor að endingu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert