Vorum alltaf skrefinu á eftir

Kári Garðarsson les sínum mönnum pistilinn í Hertz-höllinni í kvöld.
Kári Garðarsson les sínum mönnum pistilinn í Hertz-höllinni í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

Kári Garðarsson, þjálfari Gróttu, var svekktur eftir stórt 35:26-tap á heimavelli gegn Fram í 18. umferð Olísdeildar karla í handknattleik í Hertz-höllinni í kvöld. Gróttu menn voru búnir að vinna tvö í röð fyrir leik kvöldsins en voru aldrei líklegir gegn öflugum Frömurum í kvöld og höfðu liðin sætaskipti að leik loknum.

Daði Laxdal Gautason var ekki með vegna veikinda og var Bjarni Ófeigur Valdimarsson aðeins með í upphafi leiks en hann á einnig við veikindi að stríða.

„Það var ansi margt sem fór úrskeiðis í kvöld. Fyrir þá sem vilja afsaka þetta í fyrstu setningu að þá er Daði heima veikur og Bjarni er það líka, þó hann mætti til leiks en það sást strax að hann var ekki líklegur til að gera einhverjar stórar rósir í dag og það munar um það.“

Voru það mistök að nota Bjarna í upphafi leiks, í ljósi þess að hann var ekki í standi?

„Það getur vel verið, menn ætla sér að standa sig vel og við þjálfararnir vonum það auðvitað. En það var ljóst að það vantaði upp á hjá honum í dag, við þurfum bara að læra af þessum leik því hann var mjög mikilvægur. Það eru samt fleiri stig í pottinum og við þurfum að gera betur í næsta verkefni.“

„Ég hefði viljað sjá okkur berjast meira fyrir þessu og skilja meira eftir. Framarar voru staddir þar en við vorum langt frá, á þeim vígstöðum.“

Viktor Gísli Hallgrímsson átti ansi góðan leik í marki Fram í kvöld en hann varði oft á tíðum afar skrautlega. Kári segir þó skotnýtingu sinna manna ekki hafa verið eina vandamál liðsins í leiknum.

„Okkur gekk margt illa í dag, hvort sem það var í vörn eða skot á mark eða tæknifeilar. Það getur vel verið að það hafi verið einhver heppnisstimpill yfir sumu hjá honum, hann varði oft vel frá okkur. Þetta var einn af þessum leikjum þar sem allt gekk upp hjá öðru liðinu og við vorum skrefinu á eftir í öllu.“

Vonir Gróttumanna um sæti í úrslitakeppninni standa völtum fæti eftir þessi úrslit en sömuleiðis er liðið ekki öruggt um sæti sitt í deildinni.

„Ég tækla þetta þannig að ég verð ekki í rónni fyrr en sæti okkar í deildinni er öruggt. Það er ekki svo enn þá og við þurfum að ná í fleiri stig til þess að það gerist. Auðvitað hefði úrslitakeppnin verið gulrót sem hefði verið skemmtileg og spennandi en númer eitt, tvö og þrjú er markmiðið að ná í þau stig sem tryggja að við föllum ekki úr deildinni,“ sagði Kári að endingu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert