Hetja Aftureldingar hógvær

Lárus stóð sig vel í kvöld.
Lárus stóð sig vel í kvöld. mbl.is/Eggert

„Þetta var rosalega erfiður leikur og útlitið var ekki gott,“ sagði Lárus Helgi Ólafsson, markvörður Aftureldingar, eftir 20:19 sigur liðsins gegn Fjölni í Olís-deild karla í handknattleik í kvöld.

Lárus varði 14 skot í leiknum, þar á meðal síðasta skot leiksins en hann hrósaði Fjölni eftir leik. Fjölnir náði þriggja marka forskoti um miðjan seinni hálfleik og var fátt sem benti til þess að Afturelding færi með sigur af hólmi.

„Þeir áttu líklega meira skilið úr honum. Þetta var seigla og karakter hjá okkur í lokin,“ sagði Lárus en Afturelding er í sjötta sæti deildarinnar með 19 stig.

„Við vorum svolítið stirðir í sókninni en á móti frábærir í vörn. Stundum er endalaust skorað í leikjum en í þessum leik voru vörn og markvarsla í aðalhlutverki,“ sagði Lárus sem var hógvær þegar talið barst að frammistöðu hans í kvöld:

„Þegar þeir spila svona vörn þá stendur maður sig vel, annað væri lögbrot held ég.“

Hann sagðist ekki hafa hugsað mikið fyrir lokasókn Fjölnis. „Svona er handboltinn langskemmtilegastur. Ég var samt ekkert að ofhugsa þetta.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert