Fjölnir er fallinn

Sveinn Þorgeirsson og félagar í Fjölni hafa verið í erfiðri …
Sveinn Þorgeirsson og félagar í Fjölni hafa verið í erfiðri botnbaráttu í allan vetur. mbl.is/Kristinn Magnússon

Fjölnir er fallinn úr Olísdeildinni eftir eins árs veru. Fjölnir tapaði í kvöld með níu marka mun fyrir Víkingi, 30:21, í næstsíðustu umferð á heimavelli. Liðið getur ekki bjargað sér frá falli úr þessu og fylgir Víkingi niður en liðin komu upp í Olísdeildinni á síðasta vori.

Haukar sitja áfram í fjórða sæti deildarinnar fyrir lokaumferðina á miðvikudagskvöldið.

Fjölnismenn skoruðu fjögur mörk í röð á fyrstu mínútum leiksins eftir að Haukar höfðu skorað þrjú fyrstu mörkin. Lengra komust leikmenn Fjölnis ekki í fyrri hálfleik. Haukar skrúfuðu upp hraðann og náðu fljótlega þriggja til fjögurra marka forskoti. Þeir sýndu mátt sinn og megin og voru með fimm marka forystu í hálfleik, 16:11. Leikmenn Fjölnis reyndu hvað þeir gátu og eiga hrós skilið að leggja ekki árar í bát við mótlætið enda andstæðingurinn lítt árennilegur auk þess að vera í baráttu um stig í toppbaráttunni.

Síðari hálfleikur varð aldrei spennandi. Haukar héldu sínu striki og léku góða vörn auk þess sem Björgvin Páll Gústavsson var vel með á nótunum í markinu. Fjölnismenn voru aldrei nærri því að hleypa spennu í leikinn. Þeir reyndu hvað þeir gátu en höfðu ekki erindi sem erfiði. Munurinn var lengst af fimm til sex mörk en jókst undir lokin þegar Fjölnir gerði hvað hann gat til þess að hleypa leiknum upp.

Það var e.t.v. til of mikils ætlast að Fjölnismenn björguðu sér eða fengju gálgafrest með því að vinna Hauka eftir það sem á undan er gengið hjá Fjölni á leiktíðinni. Þrjú töpuð stig gegn Víkingi á leiktíðinni voru þau sem fyrst og síðast gerðu stöðu liðsins erfiðari en ella. En Fjölnismenn fá hrós fyrir að leggja ekki árar í bát þótt við ofurefli væri að etja. Haukar voru hins vegar allt of sterkir, gæðin innan þeirra liðs meiri, til þess að einhver von væri fyrir heimamenn.

Andri Berg Haraldsson var markahæstur Fjölnismanna með sex mörk. Bjarki Lárusson og Kristján Örn Kristjánsson skoruðu þrjú mörk hvor. Hákon Daði Styrmisson skoraði sex mörk fyrir Hauka og Adam Haukur Baumruk og Daníel Þór Ingason fjögur mörk hvor.

Tölfræði leiksins er að finna hér að neðan.

Fjölnir 21:30 Haukar opna loka
60. mín. Brynjólfur Snær Brynjólfsson (Haukar) skoraði mark
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert