Þeir voru klókari en við

Einar Jónsson, þjálfari Stjörnunnar.
Einar Jónsson, þjálfari Stjörnunnar. mbl.is/Eggert Jóhannesson
Stjarnan tapaði 29:28 fyrir ÍBV þegar liðin áttust við í 21. umferð Olís-deildar karla í Vestmannaeyjum í kvöld. Leikurinnn var í jafn framan af en ÍBV virtist ætla að síga fram úr í seinni hálfleik en leikurinn varð spennandi alveg til leiksloka. 
Stjarnan hafði unnið fjóra leiki í röð áður en kom að leiknum í kvöld en Einar Jónsson, þjálfari Stjörnunnar, var augljóslega ekki ánægður með að tapa leiknum.

„Þeir voru klókari en við í restina, við förum með víti, förum með dauðafæri og það var dýrt. Við vorum rosalega mikið einum færri og það tekur sinn toll, við erum held ég talsvert meira einum færri en þeir. Það er erfitt á móti frábæru liði ÍBV, við hefðum getað verið skynsamari í okkar leik heilt yfir, ég er samt stoltur af strákunum, við lögðum allt í þetta. Þetta var ágætis frammistaða í heildina fannst mér,“ sagði Einar við mbl.is eftir leik.

„Við ætlum okkur að halda þessu flugi inn í úrslitakeppnina, þetta er framhald af þessum fjórum sigurleikjum í síðustu leikjum. Frammistaðan var ágæt, það er það sem við tökum út úr þessu, varnarleikurinn fannst mér góður á köflum. Þegar við erum sex á sex þá erum við þéttir, sóknarleikurinn var fínn, við skorum 28 mörk og það er ágætt. Við erum á réttri leið, það er áfram gakk eins og maðurinn sagði.“

Arnar Pétursson og Einar Jónsson, þjálfarar liðanna í dag voru ekki alltaf sáttir með dómarana í dag og létu þá heyra það nokkrum sinnum, var Einar eitthvað ósáttur við frammistöðu þeirra?

„Það er eins og gengur og gerist í þessu, við þurfum að líta í eigin barm og sjá hvað við getum gert betur. Mér fannst þeir vera full harðir á því að reka okkur útaf, maður þarf að sjá það aftur, sjálfsagt er örugglega mest af því rétt. Það sem er dýrast í þessum leik er það að við erum of mikið einum færri, ég var samt ekkert óánægður með dómgæsluna,“ sagði Einar en Stjörnumenn fengu fimm tveggja mínútna brottvísanir gegn þremur hjá ÍBV. 

Stjarnan spilar í síðustu umferðinni við FH-inga en sá leikur er einnig mikilvægur fyrir Eyjamenn en þeir treysta á að FH vinni Stjörnuna, gegn því að ÍBV vinni Framara, hvernig ætlar Einar að leggja leikinn upp?

„Það er sama og verið hefur, við verðum að fara að undirbúa okkur strax á morgun og á þriðjudaginn. Þetta verður hefðbundið, alveg eins og þetta er búið að vera,“ sagði Einar að lokum. 
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert