Þetta var með erfiðari fæðingum

Arnar Pétursson ræðir við sína menn.
Arnar Pétursson ræðir við sína menn. mbl.is/Eggert Jóhannesson

ÍBV vann sigur á Stjörnunni í kvöld 29:28 þegar liðin mættust í næst síðustu umferð Olís-deildar karla í Vestmannaeyjum í kvöld. Með sigrinum komst ÍBV einu skrefi nær deildarmeistaratitlinum og vinna þeir hann ef liðinu tekst að vinna Fram í næsta leik og FH-ingar vinna Stjörnuna. 

Arnar Pétursson, þjálfari liðsins, tilkynnti um daginn að hann muni ekki framlengja samning sinn við félagið eftir tímabilið og var Erlingur Richardsson ráðinn í hans stað. Arnar var augljóslega himinlifandi með sigurinn, sem var torsóttur. 

„Þetta var mjög erfið fæðing, með þeim erfiðari sem ég hef farið í gegnum,“ sagði Arnar en ÍBV hefur oft í deildinni lent í því að missa niður margra marka forskot og þurft að bjarga sigrinum á lokamínútum leikjanna. 

Mikið jafnræði var í leiknum að undanskildum einum kafla þar sem leikmenn ÍBV voru mun sterkari og náðu fjögurra marka forskoti.

„Seinustu 10 mínúturnar vorum við með frumkvæðið í þessu, við vorum ekki að hitta á okkar besta dag, við vorum ekki alveg sáttir með okkur. Við tökum eitthvað úr þessu, eins og þessa tvo punkta og erum sáttir með það.“

Stjarnan hefur verið á skriði og voru búnir að vinna síðustu fjóra leikina sína fyrir leikinn í dag.

„Þeir eru búnir að vera á miklu skriði og hafa verið að standa sig mjög vel. Við vissum að þetta yrði hörkuleikur, eins og hann var.“

Með þessum sigri er ÍBV í góðri stöðu fyrir lokaumferðina, með sigri gegn Fram tryggir liðið sér deildarmeistaratitilinn ef FH vinnur Stjörnuna, eða ef Selfossi tekst ekki að vinna Víkinga. ÍBV hefur nefnilega betur í innbyrðisviðureignum þessara þriggja liða ef þau öll verða jöfn. Þar er ÍBV með 6 stig, líkt og Selfoss en betri markatölu heldur en Selfyssingarnir úr leikjum þessara þriggja liða í deildinni.

„Mér skilst að það sé þannig, það er ánægjuleg staða fyrir lokaumferðina að það sé öll þessi spenna í þessu. Við verðum að einbeita okkur að okkar leik, við eigum Fram á útivelli, það er hörkuleikur. Við förum í það og sjáum hvert það skilar okkur, við þurfum að vera eins og menn þar.“

Róbert Aron Hostert meiddist á öxl í síðari hálfleik og óvíst með þátttöku hans í næstu leikjum, hvað fannst Arnari um það atvik?

„Mér fannst það ekki fallegt, það er farið aftan í hann í hraðaupphlaupi, hann fellur illa og meiðist á öxl. Við vitum ekki hversu alvarlegt það er, en það er aldrei fallegt þegar það er verið að fara aftan í menn í þessum hraðaupphlaupum. Ég er ekki með allar þessar reglur á hreinu en mér finnst að þetta eigi að vera útafrekstur, menn vita hvað þeir eru að gera og hvaða hættum þeir eru að bjóða heim með því að fara aftan í menn í hraðaupphlaupum. Við viljum vernda menn í þessari stöðu.“

Arnar Pétursson og Einar Jónsson, þjálfarar liðanna, létu dómarana oft vita í leiknum að þeim fyndist vegið illa að sínu liði, var Arnar ekki sáttur með störf þeirra í kvöld?

„Ég reyndi að vera rólegur. Ég er orðinn frekar leiður á þessu tuði í dómurunum, mér finnst þeir verða að taka harðar á þessu. Menn byrja miskunarlaust, við erum búnir að fá nokkur lið í heimsókn núna, menn eru byrjaðir á fyrstu mínútu að tuða og kalla eftir einhverju. Jú, þegar maður horfir upp á þetta, dettur maður í sama pakka. Ég heimta að dómarar taki harðar á þessu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert