Toppslagur í Kaplakrika í kvöld

Einar Rafn Eiðsson og félagar í FH gætu orðið deildarmeistarar …
Einar Rafn Eiðsson og félagar í FH gætu orðið deildarmeistarar í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

FH og Selfoss mætast í kvöld í uppgjöri tveggja efstu liðanna í Olísdeild karla í handknattleik en næstsíðasta umferð deildarinnar er öll leikin á sama tíma, klukkan 19.30.

FH er með 32 stig en Selfoss og ÍBV 30 stig hvort. FH gæti orðið deildarmeistari í kvöld með sigri á Selfyssingum, ef ÍBV vinnur ekki Stjörnuna í Eyjum á sama tíma.

Í lokaumferðinni á miðvikudagskvöld leikur FH við Stjörnuna á útivelli, ÍBV sækir Fram heim og Selfoss tekur á móti Víkingi.

Liðin gætu öll endað jöfn með 34 eða 32 stig stig og þá myndi heildarmarkatala Selfoss og ÍBV ráða úrslitum um hvort þeirra yrði deildarmeistari. FH stendur höllum fæti í innbyrðis leikjum gegn keppinautunum eftir að hafa tapað öllum leikjum gegn þeim í vetur.

Úrslit geta ráðist í fallbaráttunni þar sem annaðhvort Fjölnir eða Grótta fellur ásamt Víkingi. Fjölnir verður að ná í minnst eitt stig gegn Haukum og treysta á að Grótta vinni ekki Víking, að öðrum kosti eru Fjölnismenn fallnir. Grótta er með 11 stig og Fjölnir 8 en liðin mætast í lokaumferðinni og til að Fjölnir eigi von mega ekki meira en tvö stig skilja liðin að eftir umferðina í kvöld.

Leikirnir í lokaumferðinni í kvöld kl. 19.30:

FH - Selfoss
ÍBV - Stjarnan
Fjölnir - Haukar
Víkingur - Grótta
ÍR - Fram
Valur - Afturelding

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert