Góð tilfinning fyrir leiknum

Þórey Rósa Stefánsdóttir.
Þórey Rósa Stefánsdóttir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Slóvenar stóðu sig vel á HM í desember og unnu meðal annars Frakka í riðlakeppninni. Ljóst er að um hörkulið er að ræða,“ sagði Þórey Rósa Stefánsdóttir, landsliðskona í handknattleik, spurð um landslið Slóvena sem íslenska landsliðið mætir í undankeppni Evrópumótsins í Laugardalshöll annað kvöld. Flautað verður til leiks klukkan 19.30 og er aðgangur ókeypis.

„Slóvenar léku hörkuleik við Dani í riðlinum í haust og gerðu jafntefli við Tékka á heimavelli,“ sagði Þórey Rósa sem er þriðji leikjahæsti leikmaður landsliðsins að þessu sinni með 83 landsleiki að baki.

„Tékkar eru með lið sem er langt á undan okkur en ef marka má úrslit leiks Tékka og Slóvena þá getur verið að landslið Slóvena henti okkur vel. Ég er nokkuð vongóð svo lengi sem við náum að stilla strengina saman fyrir leikinn á þeim skamma tíma sem gefst til undirbúnings,“ sagði Þórey Rósa en landsliðið kom saman til æfinga á sunnudagskvöld. Eftir leikinn í Laugardalshöll fer íslenska liðið ásamt Slóvenum til Slóveníu á fimmtudagsmorgun en liðin leiða saman hesta sína öðru sinni í Celje í Slóveníu síðdegis á sunnudag.

Íslenska liðið er án stiga í undankeppninni eftir tvo tapleiki í haust, annarsvegar fyrir Tékkum á útivelli og hinsvegar á móti Dönum. Slóvenar hafa eitt stig eftir tvær viðureignir.

Sigruðu Frakka á HM

Eins og Þórey Rósa kom inn þá stóð landslið Slóvena sig nokkuð vel á heimsmeistaramótinu sem fram fór í Danmörku í desember sl. Slóvenar unnu Frakka með eins marks mun, 24:23, í fyrstu umferð riðlakeppninni. Frakkar urðu síðar heimsmeistarar eftir sigur á Noregi í úrslitaleik. Slóvenar töpuðu fyrir Rúmenum með þriggja marka mun, 31:28, unnu Angóla, 32:25, og Paragvæ, 28:22, áður en liðið tapaði fyrir Spáni, 27:22, í lokaleik riðlakeppninnar. Slóvenar féllu úr keppni í 16-liða úrslitum með 12 marka tapi fyrir Svíum, 33:21.

Uppistaðan í liði landsliði Slóvena eru leikmenn sem leika með Krim Mercator, sterkasta félagsliði landsins. Alls voru níu leikmenn af 16 í hópnum á HM frá Krim en einnig leika liðsmenn með félagsliðum í Þýskalandi, Rúmeníu og Frakklandi.

Sjá allt viðtalið við Þóreyju Rósu í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert