Ólafur fluttur slasaður á sjúkrahús

Ólafur Gústafsson í leik með Stjörnunni en hann gekk til …
Ólafur Gústafsson í leik með Stjörnunni en hann gekk til liðs við KIF Kolding í dönsku úrvalsdeildinni í vetur. mbl.is/Árni Sæberg

Ólafur Gústafsson meiddist illa á hægra hné í kappleik í dönsku úrvalsdeildinni í handknattleik í kvöld og var fluttur með sjúkrabíl á sjúkrahús. Ekki er ljóst enn hversu alvarleg meiðslin eru en danskir fjölmiðlar telja að þau geti verið mjög slæm.

Atvikið átti sér stað undir lok fyrri hálfleiks þegar Ólafur, sem leikur með KIF Kolding, braust í gegnum vörn Mors-Thy og skoraði mark. Virtist hann lenda illa og lá óvígur eftir. Ólafur fékk aðhlynningu inni á leikvellinum áður en hann var borinn út af. Eftir skoðun utan vallar var Ólafur fluttur á sjúkrahús þar sem hann fer rakleitt í skoðun eftir því sem mbl.is hermir.

Ólafur gekk til liðs við Kolding í haust sem leið eftir að hafa safnað vopnum sínum í herbúðum Stjörnunnar um skeið en erfið meiðsli settu lengi strik í reikning hans. Ólafur hefur leikið einstaklega vel með Kolding á yfirstandandi keppnistímabili.

Ólafur var nýverið valinn í íslenska landsliðið í fyrsta sinn í fimm ár. Landsliðið tekur þátt í fjögurra liða móti í Noregi eftir páska.

Myndskeið af atvikinu má sjá hér.

Kolding tapaði leiknum með þriggja marka mun, 31:28, eftir að staðan var jöfn eftir fyrri hálfleik, 14:14.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert