Var hættur en ótrúleg endurkoma

Kim Ekdahl Du Rietz.
Kim Ekdahl Du Rietz. Ljósmynd/Rhein-Neckar Löwen

Sænski handknattleikmaðurinn Kim Ekdahl Du Rietz hefur engu gleymt þó svo hann hafi tekið sér langt frí frá íþróttinni.

Ekdahl, sem er 28 ára gamall, ákvað síðasta sumar að leggja skóna á hilluna en hann lék þá með þýska meistaraliðinu Rhein-Neckar Löwen. Svíinn sagðist vera orðinn leiður á handboltanum og vildi frekar eyða tíma sínum í ferðalög út í heiminn.

En fyrir þremur síðan ákvað Ekdahl að taka fram skóna á nýjan leik og var honum tekið fagnandi af forráðamönnum Löwen en með liðinu leika sem kunnugt er þeir Guðjón Valur Sigurðsson og Alexander Petersson.

Ekdahl hefur skorað 24 mörk í síðustu fjórum leikjum Rhein-Neckar Löwen og þar af 19 í síðustu tveimur leikjum liðsins. Löwen trónir á toppi þýsku 1. deildarinnar. Liðið er með 42 stig, tveimur stigum meira en Flensburg og á að auki leik til góða.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert