Allt getur gerst og margt á eftir að gerast

Gunnar Magnússon var skiljanlega svekktur í kvöld.
Gunnar Magnússon var skiljanlega svekktur í kvöld. mbl.is/Hanna Andrésdóttir

„Þetta voru vonbrigði, við vorum ekki góðir í dag og sjálfum okkur verstir. Við eigum smá spretti en sóknarleikurinn var bara ekki góður, Valsarar voru bara fremri en við á öllum sviðum og áttu þetta skilið.“

Þetta sagði Gunnar Magnússon, þjálfari Hauka, eftir 29:22-tap á heimavelli gegn Val í lokaumferð Olísdeildar karla í handknattleik í kvöld. Leikurinn var úrslitaleikur um 4. sætið og urðu Haukar því að sætta sig við það fimmta og misstu þar af leiðandi heimavallarréttinn til Valsara sem þeir mæta í úrslitakeppninni eftir páska.

„Við ætluðum okkur að vinna þennan leik og erum fúlir að hafa ekki náð því. En nú þurfum við bara að sækja sigur í Valsheimilið, við höfum gert það áður í vetur. Þetta eru tvö jöfn lið og það bíður okkar bara rosalegt einvígi.“

Þó Valsarar hafi unnið sannfærandi sigur í kvöld segir Gunnar þetta vera tvö jöfn lið og að hans menn verði fljótir að hrista þessi vonbrigði af sér.

„Það eru sveiflur í þessum leikjum, allt getur gerst og margt á eftir að gerast. Við þurfum bara að undirbúa okkur betur næstu vikurnar því við vorum ekki klárir í dag. Ég hef verið ánægður með frammistöðuna síðustu vikur en þetta var smá skref aftur á bak í dag. Við verðum fljótir að hrista það af okkur.“

Tjörvi Þorgeirsson var ekki með í kvöld eins og svo oft áður í vetur en hann hefur verið að eiga við þrálát hnémeiðsli. Gunnar er vongóður um að endurheimta leikstjórnandann fyrir úrslitakeppnina, en segir sína menn líka þurfa að undirbúna að vera án hans.

„Hann er bara að berjast við hnémeiðslin sem hafa verið að hrjá hann í allan vetur. Við verðum að vera klárir að leysa þetta án hans því þetta hefur verið basl á honum í vetur. Við erum bjartsýnir og vonum að hann geti hjálpað okkur, það kemur núna þriggja vikna hlé og vonandi nýtist það honum,“ sagði hann að endingu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert