Svakalegt að þurfa að bíða

Elvar Örn Jónsson.
Elvar Örn Jónsson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Já, það var svakalegt að þurfa að bíða eftir þessu,“ sagði Elvar Örn Jónsson og andvarpaði eftir að Selfoss horfði á ÍBV klára leikinn gegn Fram á lokasekúndunni og tryggja sér deildarmeistaratitilinn í Olísdeildinni í handbolta.

Selfoss vann Víking örugglega, 37:26, á heimavelli í kvöld og þurfti svo að bíða eftir úrslitunum úr leik ÍBV og Fram sem lauk tíu mínútum síðar vegna rafmagnsleysis í Safamýrinni. ÍBV sigraði og Selfoss þarf enn að bíða eftir sínum fyrsta stóra bikar í handboltanum.

„Við gerðum allt sem við gátum til að vinna okkar leik og svo þurftum við bara að sjá til. ÍBV þurfti að tapa stigum og þeir voru nálægt því en Aggi náði að bjarga þeim,“ sagði Elvar Örn í samtali við mbl.is eftir leik.

„Við börðumst bara hérna, við ætluðum að ná þessum deildarmeistaratitli og hefðum kannski þurft að vinna með miklum mun, þannig að við tókum þennan leik eins og hvern annan. Við hugsuðum bara að við ætluðum að gera okkar og vorum ekkert yfirspenntir fyrir leik,“ sagði Elvar ennfremur og bætti við að þrátt fyrir að missa af titlinum væri Selfoss að ná sínum besta árangri frá upphafi.

„Það er mjög flott og við erum stoltir af því þó að það hafi verið svekkjandi að missa af deildarmeistaratitlinum svona alveg í lokin. Nú byrjar bara ný keppni og það eru spennandi tímar framundan. Mér líst vel á að mæta Stjörnunni, það er sama hvaða lið það hefði verið þetta hafa allt verið hörkuleikir í vetur en núna undirbúum við okkur bara vel fyrir Stjörnuna. Þetta er spennandi verkefni.“

Patrekur Jóhannesson, þjálfari Selfoss, hefur verið óhræddur við að tefla fram ungum leikmönnum í vetur og þeir hafa sýnt að þeir eru með hugarfar sigurvegara.

„Við erum ungir og hungraðir í að sigra. Við höfum verið í sterkum yngri flokkum og erum vanir að vinna titla. Þetta er auðvitað allt öðruvísi þegar þú ert kominn í meistaraflokk en við búum að þessari reynslu þar sem mikið er í húfi í leikjum og það er gott hugarfar í liðinu. Þó að þetta hafi ekki endað vel fyrir okkur í kvöld þá förum við klárlega hungraðir inn í úrslitakeppnina,“ sagði Elvar Örn að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert