Með betri aðsókn en Barcelona og Löwen

Ólafur Guðmundsson fagnar marki með Kristianstad.
Ólafur Guðmundsson fagnar marki með Kristianstad. Ljósmynd/Kristianstad.

Íslendingaliðin Kristianstad og Aalborg eru með betri aðsókn á leikjum sínum í Meistaradeild Evrópu í handknattleik á þessu tímabili heldur en meistaraliðin Barcelona og Rhein-Neckar Löwen, sem einnig eru svokölluð Íslendingalið.

Sænska meistaraliðið Kristianstad, sem Ólafur Guðmundsson, Arnar Freyr Arnarsson og Gunnar Steinn Jónsson leika með, eru með áttundu bestu aðsóknina en að meðaltali mættu 4.267 á leiki liðsins í Meistaradeildinni.

Danska meistaraliðið Aalborg, sem leikur undir stjórn Arons Kristjánssonar og þeir Janus Daði Smárason, Arnór Atlason og Darri Aronsson leika með, eru með tíundu bestu aðsóknina en að meðaltali hafa 3.816 áhorfendur mætt á leiki liðsins í Meistaradeildinni.

Þýska liðið Kiel, undir stjórn Alfreðs Gíslasonar, fær langflesta áhorfendur en að meðaltali hafa 9.467 manns komið á leiki liðsins í Meistaradeildinni. Króatíska liðið RK Zagreb er með að meðaltali 6,663 áhorfendur og Vardar Skopje frá Makedóníu er með þriðju bestu aðsóknina, 5.121.

Hjá Barcelona, sem Aron Pálmarsson leikur með, eru 3.413 manns að meðaltali á leikjum liðsins í Meistaradeildinni og eru Börsungar með 12. bestu aðsóknina og hjá Rhein-Neckar Löwen, sem Guðjón Valur Sigurðsson og Alexander Petersson leika með, eru áhorfendur að meðtali 2.988 í Meistaradeildinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert