Tímabilið líklega búið hjá Ólafi

Ólafur Gústafsson.
Ólafur Gústafsson. Ljósmynd/kif.dk

Líklegt er að landsliðsmaðurinn Ólafur Gústafsson spili ekkert meira með danska úrvalsdeildarliðinu Kolding á leiktíðinni en hann meiddist á hné í leik með liðinu í fyrrakvöld og var fluttur á sjúkrahús.

„Liðslæknirinn er búinn að fara yfir röntgenmyndirnar og við fyrstu athugun hans eru krossbönd og liðþófi í góðu lagi en líklega eru liðböndin í utanverðu hnénu slitin. Nú bíð ég bara eftir niðurstöðu frá sérfræðingi,“ sagði Ólafur í samtali við mbl.is en hnéskelin fór úr liði en var komin aftur á sinn stað úti á vellinum.

Ólafur gekk í raðir Kolding í haust frá Stjörnunni og er samningsbundinn danska úrvalsdeildarliðinu til ársins 2020 en hann hefur átt góðu gengi að fagna með liðinu á leiktíðinni. Hann var á dögunum valinn í A-landsliðið sem tekur þátt í fjögurra þjóða mótinu í Noregi í byrjun apríl en ljóst er að Ólafur verður ekki með á því móti vegna meiðslanna.

 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert