Fyrrverandi lið Vignis er gjaldþrota

Vignir Svavarsson.
Vignir Svavarsson.

Danska handknattleiksliðið HC Midtjylland er gjaldþrota en forráðamenn þess óskuðu í morgun eftir gjaldþrotaskiptum. Tilkynningin um gjaldþrotið kemur ekki á óvart þar sem rekstur HC Midtjylland hefur verið þungur á síðustu mánuðum og m.a. hafa leikmenn og aðrir starfsmenn fengið laun sín út greidd seint og um síðir.

Fyrir vikið hefur talsvert flísast úr leikmannahópi liðsins og árangurinn á síðasta keppnistímabili var samkvæmt því. HC Midtjylland hafnaði í næstneðsta sæti dönsku úrvalsdeildarinnar og er nú í umspilskeppni um sæti í deildinni á næstu leiktíð.

Félagið hefur m.a. ekki staðið við greiðslum á opinberum gjöldum. 

Vignir Svavarsson, landsliðsmaður í handknattleik, lék með HC Midtjylland frá 2014 til 2016. Þegar Vignir kom til HC Midtjylland var það nýliði í dönsku úrvalsdeildinni. Lið félagsins fór hressilega af stað leiktíðina 2014/2015 en eftir það hefur dregið úr flugi þess. Vignir hefur síðustu tvö ár leikið með Team Tvis Holstebro, öðru liði á Jótlandi. 

Helsti bakhjarl félagsins, Thomas Hintze, segist hafa lagt félaginu til 17 milljónir danskra króna á síðustu þremur árum, jafnvirði ríflega 280 milljóna íslenskra króna. Sú upphæð ásamt öðrum tekjum félagsins hefur ekki nægt til þess að standa undir rekstrinum. Hintze segir að því miður sé nú nóg komið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert