Ekki vinir þegar flautað er á

Eyjamenn voru vel studdir í leiknum gegn Haukum í kvöld.
Eyjamenn voru vel studdir í leiknum gegn Haukum í kvöld. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

Aron Rafn Eðvarðsson, markvörður ÍBV, átti sannkallaðan stórleik þegar Eyjamenn sigruðu Hauka með tveggja marka mun í kvöld. Aron varði nítján skot í markinu og ÍBV því 1:0 yfir í einvígi liðanna í undanúrslitum Íslandsmóts karla í handknattleik.

„Þetta var mjög mikilvægt, við erum að fara í langt ferðalag til Rúmeníu og þetta er gott veganesti fyrir þann leik.“

Sagan á milli þessara liða síðustu ár er mikil, margir leikmenn sem hafa spilað með báðum liðum og þjálfararnir hafa báðir verið hjá báðum félögum. Gerir þetta leikinn aðeins meira sérstakan?

„Já, alveg klárlega. Það er alltaf gaman að mæta Haukunum, ekki það að ég hafi mætt þeim oft, maður finnur spennuna, þegar leikurinn er flautaður á, þá eru menn ekki vinir. Það er alveg augljóst en þegar leikurinn er flautaður af, þá knúsast menn og þetta er búið,“ sagði Aron Rafn en hann er uppalinn í Haukum og spilaði með þeim upp alla flokkana. 

Björgvin Páll Gústavsson og Aron Rafn gáfu tóninn í upphafi leiks, þar sem þeir vörðu frábærlega, þeir héldu því út allan leikinn.

„Bjöggi var mjög flottur, hann varði mikið af dauðafærum og greip nokkra bolta frá Agga, held ég. Mér persónulega gekk vel, þeir voru nokkrir boltarnir sem ég hefði viljað klára, að auki. Maður getur ekki gert allt í fyrsta leik,“ sagði Aron en hann virðist vera spenntur fyrir næsta leik liðanna.

Eyjamenn leiða leikinn lengi vel en upp úr sauð undir lokin og stuttu seinna fékk Magnús Stefánsson rautt spjald. Sýndu Eyjamenn mikinn karakter með því að koma til baka, tveimur mörkum undir?

„Jú, alveg klárlega, menn voru búnir að missa hausinn, þetta sýnir mikinn karakter að koma til baka, þetta sýnir hversu sterkir við erum orðnir og hversu þroskaðir við erum orðnir líka að geta snúið þessu við þegar það eru tíu eða tólf mínútur eftir.“

Hjálpaði fólkið í stúkunni leikmönnum þegar þeir voru lentir tveimur mörkum undir?

„Það voru þvílík læti í Hvítu riddurunum og öllu fólkinu svo sem, það voru þvílík læti og mjög gaman að spila hérna í kvöld. Ég vil líka taka það fram að mér fannst dómararnir mjög flottir hérna í dag,“ sagði Aron en fannst honum rauða spjaldið á Magnús réttlætanlegt?

„Ég sá það ekki, þetta var erfiður leikur að dæma og mér fannst þeir halda línunni þokkalega.“

Eyjamenn fara út til Rúmeníu á fimmtudaginn, ÍBV er með þriggja marka forskot eftir fyrri leik liðanna, eru Eyjamenn spenntir fyrir þessu verkefni?

„Já, alveg klárlega, við eigum langt ferðalag fyrir höndum, það verður geðveikt gaman að fara til Rúmeníu, vonandi náum við að slá þá út og fara alla leið í þeirri keppni líka.“

Ef Aroni yrði boðið að verða Evrópumeistari í Áskorendakeppninni eða Íslandsmeistari, hvort myndi hann velja?

„Vá, það er erfitt að svara því, bara bæði.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert