Staðan sem við vildum vera í

Arnar Pétursson fylgist með leiknum í kvöld.
Arnar Pétursson fylgist með leiknum í kvöld. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

Arnar Pétursson, þjálfari ÍBV, stýrði liði sínu til sigurs gegn Haukum í fyrsta leik liðanna í undanúrslitum Íslandsmóts karla í handknattleik í kvöld þegar liðin mættust í Vestmannaeyjum. 

„Hann spilaðist í takt við það sem við áttum von á, þetta voru hörkuvarnir og góðar varnir, frábær markvarsla og menn að fórna sér í verkefnið, bæði lið,“ sagði Arnar um leikinn en markverðir beggja liða áttu virkilega góðan leik.

„Já, þetta eru tveir bestu markmenn landsins, þeir sýndu það í dag, frábærir báðir.“

Allt virtist ætla að sjóða upp úr þegar rúmar tíu mínútur voru eftir en stuttu síðar fékk Magnús Stefánsson að líta rauða spjaldið, hvað fannst Arnari um frammistöðu dómaranna í kvöld?

„Heilt yfir stóðu þeir sig vel, í hita leiksins fannst mér þetta rauða spjald á Magga ekki alveg rétt, ég þarf að skoða þetta aftur og tek það þá til baka ef ég hef rangt fyrir mér. Í fyrri hálfleik fannst mér koma upp nákvæmlega eins atvik þegar þeir tóku sér tíma í að íhuga hvað þeir ættu að gera og þá gáfu þeir tvær mínútur, það getur þó vel verið að þetta hafi verið eitthvað allt annað og að Maggi hafi farið í andlitið á honum. Þá er þetta rautt spjald, en ég þarf að skoða það aftur.“

Stuttu áður er dæmdur ruðningur á Sigurberg og Haukarnir fara upp og komast tveimur mörkum yfir, Arnar tekur strax leikhlé. Hvernig Eyjamenn svara eftir það var aðdáunarvert.

„Mér fannst það vera fríkast, dómurinn á undan þegar hann dæmdi á Tedda, fannst mér frekar dularfullur líka og okkur fannst það öllum. Mér fannst eins og við værum að missa tökin á okkur sjálfum, bæði ég og leikmennirnir. Þá var best að pása þetta og núllstilla, það var karakter í mönnum, við róuðum okkur strax og fórum að spila handbolta.“

Daníel Þór Ingason og Adam Haukur Baumruk áttu flottan leik hjá Haukum, þeir eru með sextán af 22 mörkum þeirra, heldur Arnar að Hauka hafi vantað framlag frá öðrum leikmönnum sóknarlega til að vinna leikinn?

„Já, þeir eru að spila frábæra vörn og með góða markvörslu eins og við. Sóknarlega þróast þetta svona, þetta eru tvær hörkuskyttur og þeir spiluðu vel í dag. Þetta spilast svona stundum, við höfum farið í gegnum leiki þar sem skytturnar skora öll mörkin og við höfum farið í gegnum leiki þar sem hornamenn og línumenn skora öll. Þetta getur snúist við í næsta leik, en já kannski til að vinna í dag hefðu þeir þurft framlag frá fleiri leikmönnum.“

Má segja að Eyjamenn eigi Agnar Smára Jónsson og Theodór Sigurbjörnsson inni? þeir eru með átta mörk úr 22 skotum, Teddi er með þrjú mörk úr tíu skotum.

„Ég er kannski ekki alveg sammála að eiga þá inni, jú það má kannski líta á það þannig, Björgvin var auðvitað að verja frábærlega frá Tedda, sérstaklega, og Agga líka. Þeir voru að taka færin sín og ég var nokkuð viss um að í næsta leik getur þetta snúist við.“

Eyjamenn fara út til Rúmeníu á fimmtudaginn og það er skemmtilegt verkefni.

„Mjög svo, þetta er að mínu mati góð staða sem við erum komnir í, mjög öfundsverð staða og við ætlum að njóta þess. Þetta er eitthvað sem við ætluðum okkur og við fögnum því, þó að það sé þétt spilað og álagið mikið þá er þetta staða sem við vildum vera í, á þessum tímapunkti.

Sigurinn í dag var mjög mikilvægur, alveg sama hvort við værum að fara til Rúmeníu eða ekki, það var mikilvægt að taka hann í dag og fara á Ásvelli, þann flotta heimavöll þeirra Haukamanna, með forystu.“

Hvað er það sem gerir þessa leiki ÍBV og Hauka svona flotta og spennandi alltaf hreint?

„Það sem gerir þetta svona skemmtilegt, er að þetta eru tvö hörkulið, við höfum spilað í gegnum tíðina marga stóra og mikla leiki þar sem tekist er vel á og mikið undir. Saga þessara liða er skemmtileg, við erum að fá frá þeim menn í vetur en við höfum einnig gefið þeim, við höfum oft verið fjórir Eyjamenn í liðinu þeirra um nokkurra ára skeið. Sagan er skemmtileg á milli liðanna, Haukarnir eru stórveldi handboltans á þessari öld, þetta hefur þróast út í það að við höfum aðeins verið að kitla þá og nálgast á síðustu árum. Það er eðlilegt að hart sé tekist á, þegar mikið er undir.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert