Ákvað að koma inn með læti

Einar Sverrisson.
Einar Sverrisson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Menn tala oft um að þeir séu búnir að bíða eftir þessu allt tímabilið. Uuu, já, við erum búnir að bíða eftir eftir þessu allt tímabilið. Það er hrikalega gaman að taka þátt í svona leik. Nú er þetta að byrja,“ sagði Einar Sverrisson, hetja Selfoss, eftir sigurinn á FH í fyrsta leik liðanna í undanúrslitum Íslandsmóts karla í handbolta á Selfossi í kvöld.

Leikurinn var frábær skemmtun í troðfullu íþróttahúsi Vallaskóla á Selfossi. Úrslitin réðust í framlengingu, 36:34 sigur Selfoss.

Einar byrjaði á bekknum í kvöld og kom inn á til þess að taka vítaskotin í fyrri hálfleik. Hann lét svo heldur betur til sín taka í seinni hálfleiknum þar sem hann raðaði inn mörkunum og endaði markahæstur heimamanna með 11/5 mörk.

„Maður áttar sig ekkert á því hvað þjálfararnir eru að tala um þegar þeir segja okkur að nýta stemmninguna og svo kemur maður bara inn á völlinn og það er geggjuð stemmning sem setur allt í gang. Þetta var geggjað gaman í kvöld,“ sagði Einar sem var óhræddur við að taka af skarið þegar mest á reyndi.

„Þeir voru fimm mörkum yfir en við höfum sýnt það oft í vetur að við hættum ekkert. Maður fær ákveðið sjálfstraust þegar maður skorar eitt, tvö í röð. Patti auðvitað hamrar á því við alla að við eigum að sækja á markið. Hann er búinn að vera að hamra á þessu í allan vetur á meðan maður er kannski búinn að vera að sækja eitthvað upp í stúku. En sjálfstraustið vex með hverju marki og ég held að strákarnir hafi líka fundið það. Ég ákvað að koma inn með einhver læti, þetta var búið að vera slappt en ég náði að hrista aðeins upp í þessu. Um leið og einn tekur af skarið þá smitar það út frá sér, næsti leikmaður tekur við og stúkan kemur með. Það er rosalega vont að vera hitt liðið og lenda í að fá þetta á sig,“ bætti Einar við.

Og Selfyssingar nærðust svo sannarlega á stemmningunni í húsinu.

„Það var allt brjálað í stúkunni. Þetta hús er algjör gryfja og ég veit ekki hvort við spilum hérna á næsta ári, en ef við gerum það ekki þá á ég eftir að sakna þess mikið. Ég vildi óska að ég gæti spilað hérna áfram,“ sagði Einar enn fremur en Selfoss mun að öllum líkindum færa sig yfir í íþróttahúsið Iðu við fjölbrautaskólann á næstu leiktíð.

Næsti leikur í einvíginu er í Kaplakrika á laugardaginn og Einar býst við jöfnu einvígi áfram.

„Þetta eru bara tvö hörkulið og það má búast við að þetta verði stál í stál. Þetta einvígi verður erfitt. Menn þurfa núna að fara í kalt, heitt, hugsa vel um sig, borða, sofa. Þetta klassíska. Þetta verður bara gaman. Ég verð að hrósa þjálfarateyminu okkar hvað við vorum vel undirbúnir, strákarnir flottir, FH-ingarnir líka flottir, dómararnir flottir, þetta er frábært fyrir handboltann.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert