„Fólkið er með okkur“

Stuðningsmenn KA fagna í kvöld.
Stuðningsmenn KA fagna í kvöld. Ljósmynd/Þórir Tryggva

Stefán Rúnar Árnason, þjálfari KA-manna í handbolta, var kampakátur í kvöld eftir að lið hans hafði tryggt sér sæti í Olís-deildinni. KA spilaði þrjá úrslitaleiki gegn HK, vann þá alla og það nokkuð sannfærandi. KA fylgir því grönnum sínum í Akureyri upp í efstu deild.

Var þetta stefnan í vetur, að fara með liðið upp?

„Við vissum ekki nákvæmlega út í hvað við vorum að fara þegar ég tók við liðinu síðasta sumar. Við vorum náttúrulega með algjörlega nýtt lið. Það var lengi vel ekkert klárt hverjir væru að fara að spila. Svo þegar við vorum komnir með hópinn í lok ágúst þá var ljóst að við værum með hrikalega gott lið. Þá settum við okkur það markmið að fara upp og náðum því í kvöld.“

Þið unnuð níu fyrstu leikina og voruð lengi í efsta sætinu. Akureyri náði ykkur á endasprettinum og fór beint upp. Eftir á að hyggja, er ekki bara ágætt að hafa farið þessa leið til að koma liðinu upp?

„Það er að mörgu leyti hrikalega gott fyrir okkur. Það myndaðist mikil stemning í kringum þessa úrslitaleiki. Við erum með marga unga stráka og þessir leikir munu skila okkur gífurlega miklu. Það er ekki verra að geta fyllt KA-heimilið og að hafa klárað dæmið fyrir framan allt þetta fólk. Stuðningurinn var líka mikill og það er alveg ómetanlegt og skiptir okkur hrikalega miklu máli.“

Er eitthvað farið að spá í næsta tímabil. Þarf ekki að bæta við leikmönnum?

„Við erum alltaf að horfa fram veginn og alltaf að skoða en höfum kannski ekki farið neitt alvarlega í það. Við erum strax farnir að skoða hvað við getum mögulega gert. Sú vinna fer bara í gang á næstu dögum. Við erum með mjög skemmtilegt dæmi hérna, erum á fyrsta ári, með mikla stemningu og fólkið er með okkur. Ég held að þetta sé ævintýri sem yrði gaman fyrir einhverja leikmenn að taka þátt í og við munum leita að þeim.“

Sérðu fyrir þér að Hreinn Hauksson og Heimir Örn muni spila með liðinu áfram.

„Við verðum að sjá til með það. Þeir alla vega fara í gott frí núna og ná sér heilum og góðum. Við vitum aldrei hvað gerist“ sagði Stefán að skilnaði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert