Sætur sigur eftir viðburðaríkan vetur

Gretar Þór Eyþórsson t.v. og Magnús Stefánsson t.h. lyfta Íslandsbikarnum …
Gretar Þór Eyþórsson t.v. og Magnús Stefánsson t.h. lyfta Íslandsbikarnum eftir sigur ÍBV á Íslandsmótinu í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Þótt þessi sigur hafi verið rosalega sætur þá toppar hann ekki Íslandsmeistaratitilinn fyrir fjórum árum. Hann var einstakur enda fyrsti Íslandsmeistaratitill ÍBV í handbolta karla,“ sagði Grétar Þór Eyþórsson, einn rótgróinna Eyjamanna í liði Íslandsmeistara ÍBV í handknattleik karla, eftir sigurinn á Íslandsmótinu í dag.

„Þessi Íslandsmeistaratitilinn er ógeðslega sætur. Það var svo mikilvægt fyrir okkur að vinna að þessu sinni, ekki síst fyrir Arnar Pétursson, sem er að hætta þjálfun okkar.  Hann er ásamt mörgum öðrum mönnum, eins og Sigga Braga, potturinn og pannan í liðinu með okkur leikmönnunum sem höfum verið í liðinu í síðustu ár og öllum þeim fjölda fólks sem hefur lagt sitt lóð á vogarskálina.  Það er gaman að uppskera þegar maður leggur líf og sál í vinnuna,“ sagði Grétar Þór sem oft hefur verið talinn einn vanmetnasti leikmaður ÍBV-liðsins.

„Keppnistímabilið hefur verið rússíbanareið hjá okkur. Það hefur gengið svo mikið á, utan vallar sem innan. Fyrir vikið hefur mikið reynt á menn og fjölskyldur þeirra.  Þess vegna er titilinn að þessu sinni afar mikilvægur fyrir svo marga,“ sagði Grétar sem þykir gagnrýnin á Eyjaliðið hafa verið ósanngjörn, oft og tíðum.

„Mér finnst margt sem sagt hefur verið vera ósanngjarnt. Eins og til dæmis umræðan um brot Andra Heimis í leiknum í Eyjum á fimmtudaginn. Við erum í handbolta og látum finna fyrir okkur. Andri ætlaði ekki vísvitandi að meiða Gísla Þorgeir. Enginn í mínu liði hugsar þannig eða vinnur á þann hátt inni í leikvellinum.  En við tökum fast á mönnum.“

Grétar  Þór sagði leikmenn ÍBV-liðið hafa fundað með Heimi Hallgrímssyni tannlækni úr Vestamannaeyjum og landsliðsþjálfara í knattspyrnu í gær. Sá fundur hafi verið mikilvægur. „Hann benti okkur á að einbeita okkur að þeirri stund og þeim stað sem við værum á og vera þakklátir fyrir að vera komnir svo langt sem raun ber vitni. Ég held að við höfum verið það í dag,“ sagði Grétar Þór Eyþórsson, Íslandsmeistari í handknattleik með ÍBV.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert