Ormagryfja opnuð? - Andri fær leik til viðbótar í bann

Gísli Þorgeir Kristjánsson, leikmaður FH, t.v. meiddist illa á höfði …
Gísli Þorgeir Kristjánsson, leikmaður FH, t.v. meiddist illa á höfði og á öxl eftir að Andri Heimir Friðriksson lenti á honum s nemma leiks í þriðja úrslitaleik FH og ÍBV um Íslandsmeistaratitilinn í handknattleik. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

Eyjamaðurinn Andri Heimir Friðriksson fær einn leik í bann til viðbótar við þann leik sem hann hefur þegar tekið út fyrir brot sitt á FH-ingnum Gísla Þorgeiri Kristjánssyni í þriðja úrslitaleik liðanna um Íslandsmeistaratitilinn í handknattleik á dögununum þar sem Eyjamenn stóðu að lokum uppi sem sigurvegarar.

Er þetta úrskurður aganefndar HSÍ en athygli vekur að formaður hennar er sjálfur ósammála úrskurðinum og telur möguleika á að búið sé að opna ákveðna ormagryfju.

Aganefnd komst að þeirri niðurstöðu að hún væri ekki að endurskoða endanlega ákvörðun dómara sem aðeins er hægt að gera við „sérstakar aðstæður“. Var það öllu heldur mat nefndarinnar að hún væri að skoða „sjálfstætt álitaefni um hvort háttsemi leikmannsins í aðdraganda þess leikbrots sem hann hlaut refsingu fyrir í leiknum feli í sér leikbrot eða atvik sem telst til ósæmilegrar framkomu skv. IV. kafla reglugerðarinnar“ segir á vef HSÍ.

Ormagryfja opnuð?

Gunnar K. Gunnarsson, formaður aganendar, var vant við látinn við önnur störf fyrir evrópska handknattleikssambandið og skilaði inn sérákvæði þess efnis að aganefnd hefði átt að vísa málinu frá á grundvelli reglna sem kveða á um að ákvarðanir dómara á leikvelli séu endanlegar og megi ekki endurskoða nema um „rangan dóm sé að ræða sem hafði áhrif á úrslit leiks eins og t.d. ef dæmt er mark sem ekki fór inn eða ekki er dæmt mark þar sem knötturinn fór yfir línuna. Að öðrum kosti er ákvörðun dómara endanleg“ segir á vef HSÍ.

„Því miður tel ég að aganefnd sé með þessum úrskurði búin að opna ákveðna ormagryfju sem erfitt veri að komast upp úr í framtíðinni og búast megi við fjölda kæra í framtíðinni vegna starfa dómara,“ segir enn fremur í máli Gunnars.

Úrskurðurinn í heild sinni:

Úrskurður aganefndar 20. maí 2018.

Eftirtalin mál lágu fyrir og voru tekin til úrskurðar:

Með bréfi dags, 18. maí 2018, barst aganefnd HSÍ erindi frá stjórn HSÍ, um leikbrot Andra Heimis Friðrikssonar (hér eftir AHF), leikmanns ÍBV, í leik ÍBV gegn FH, þann 17. maí sl. Nánar tiltekið er um að ræða leikbrot fyrrnefnds leikmanns á leikmanni FH sem átti sér stað á mín. 13:57 í umræddum leik, sbr. þær myndbandsupptökur sem fylgdu bréfinu. Í áðurnefndu bréfi kemur fram að það sé mat stjórnarinnar að brot þetta hafi neikvæð áhrif á ímynd handboltans á Íslandi. Þá er það mat stjórnar HSÍ að brotið falli undir reglu 8.6. í leikreglum HSÍ. Erindi HSÍ var sent á grundvelli VI. kafla reglugerðar HSÍ um agamál (hér eftir reglugerðin).

Í samræmi við 19. gr. reglugerðarinnar var óskað eftir greinargerð frá málsaðilum. Aganefnd barst greinargerð frá ÍBV og dómurum leiksins.

Í ítarlegri greinargerð ÍBV er ekki gerð sérstök krafa en af efnisinnihaldi verður ekki annað ráðið en að ÍBV telji að ekki eigi að aðhafst frekar vegna þessa máls, m.a. með þeim röksemdum að ÍBV telur stjórn HSÍ hafa veitt aganefnd fyrirskipun í málinu og að aganefnd lúti boðvaldi stjórnar HSÍ og sé þ.a.l. öll aganefndin vanhæf í málinu. Þá telur ÍBV mat dómara á leikbrotinu endanlegt og ekki sé hægt að hagga þeirra mati. Þá telur ÍBV myndbandsupptökur og skoðanir stjórnar HSÍ ekki geta breytt þessari niðurstöðu. Þá er í greinargerðinni fjallað um fyrri samskipti félagsins við framkvæmdastjóra HSÍ um heimildir framkvæmdastjóra og stjórnar HSÍ til að vísa málum til aganefndar skv. VI. kafla reglugerðarinnar. Loks er byggt á því í greinargerð að leikbrotið réttlæti ekki þyngri refsingu en 2 mínútna brottvísun og að vísun stjórnar á málinu til aganefndar brjóti gegn jafnræði félaga.

Greinargerð barst frá dómurum leiksins. Í greinargerðinni kemur fram að dómarar hafi ekki verið í góðri sjónlínu til að sjá leikbrotið. Mat þeirra í leiknum byggði á því að AHF lá ofan á leikmanni FH og byggðist tveggja mínútna brottvísun á þeirri háttsemi einni. Eftir að hafa séð leikbrot AHF á upptöku telja dómarar leiksins brot AHF falla undir leikreglu 8:6 b). Í greinargerð dómara er gerð frekari grein fyrir afstöðu þeirra til brotsins m.t.t. staðsetningar, hluta líkamans, krafts og áhrifa.

Niðurstaða:

Af greinargerð ÍBV verður ekki annað ráðið en því sé haldið fram að framkvæmdastjóri og stjórn HSÍ hafi slíkt boðavald yfir aganefnd HSÍ að það valdi vanhæfi hennar í máli þessu. Aganefnd hafnar þessum sjónarmiðum. Aganefnd er sjálfstæð og óháð í störfum sínum við úrlausnir einstakra mála, þar með talið mála sem vísað er til nefndarinnar af stjórn eða framkvæmdastjóra á grundvelli VI. kafla reglugerðarinnar. Aganefnd HSÍ starfar á grundvelli 20. gr. laga HSÍ. Af greininni má ráða að aganefndinni nýtur tiltekins sjálfstæðis umfram aðrar fastanefndir HSÍ.

Verkefni aganefndar eru skýrt afmörkuð í 20. gr. laga HSÍ. Meðal þeirra er að ákveða viðurlög og úrskurða um afmörkuð atriði sem koma fram í atvikaskýrslum eða fjalla um önnur mál sem berast henni. Úr máli þessu verður leyst á grundvelli fyrirliggjandi gagna og sjónarmið um að brotið hafi verið gegn jafnræði félaga með vísun þessa máls til nefndarinnar umfram önnur mál getur ekki haft þar áhrif á niðurstöðu þessa máls.

Líkt og áður er rakið þá er stjórn og framkvæmdastjóra HSÍ heimilt að vísa til úrskurðar aganefndar hvers konar atvikum, m.a. leikbrotum sem ekki koma fram á atvikaskýrslu dómara, sem skaðað geta ímynd handknattleiksíþróttarinnar, sbr. 18. gr. reglugerðarinnar. Í málinu skiluðu dómarar leiksins ekki atvikskýrslu vegna brotsins. Er því málið tækt til efnismeðferðar hjá aganefnd.

Í máli þessu er byggt á því að taka beri til skoðunar hvort aganefnd hafi heimild til að breyta endanlegu mati dómara vegna leikabrota. Í leikreglu 17:11 kemur fram sú meginregla að ákvarðanir dómara sem byggðar eru á mati þeirra á staðreyndum eða mati þeirra, eru endanlegar. Í reglunni kemur þó fram undantekning frá þeirra meginreglu að heimilt sé að breyta þeim ákvörðunum sem eru ekki í samræmi við leikreglurnar. Í þessu samhengi er rétt að nefna að það er afstaða aganefndar að þessari undantekningarheimild ber að beita þröngt, jafnan skulu ákvarðanir dómara er byggja á upplifun þeirra á leiknum á meðan hann stendur halda gildi sínu. Aðeins við sérstakar ástæður getur aganefnd tekið til endurskoðunar slíkar ákvarðanir dómara. Í greinargerð dómara er rakið með afdráttarlausum hætti að aukakast var dæmt og AHF var gerð tveggja mínútna refsing fyrir að liggja ofan á leikmanni FH. Mat þeirra byggðist, eins og áður hefur komið fram, á þessari ályktun og upplifun dómaranna á meðan leik stóð. Með vísan til alls framangreinds er það mat aganefndar að erindi stjórnar HSÍ feli ekki í sér beiðni um að endurskoða ákvörðun dómara vegna leikbrots heldur sjálfstætt álitaefni um hvort háttsemi leikmannsins í aðdraganda þess leikbrots sem hann hlaut refsingu fyrir í leiknum feli í sér leikbrot eða atvik sem telst til ósæmilegrar framkomu skv. IV. kafla reglugerðarinnar. Er því sjónarmiðum ÍBV um að mál þetta komi ekki til skoðunar þar sem aganefnd er óheimilt að endurmeta ákvarðanir dómara, sbr. leikreglu 17.11. hafnað.

Ljóst er af myndbandsupptöku af atvikinu að atvikið á sér stað úti á miðjum velli þar sem leikmenn elta boltann á hlaupum. Af myndbandsupptökunni má sjá að AHF fer af miklum krafti með öxl og olnboga í líkama leikmanns FH eftir að hafa misst möguleika á því að ná boltanum. Þá er það mat dómara leiksins eftir að hafa skoðað myndbandið að um leikbrot hafi verið að ræða og um sérstaklega hættulega aðgerð að ræða gegn leikmanni FH. Telst brotið falla undir reglu b-lið gr. 8:6. Við mat á alvarleika brotsins er litið til þess að AHF kemur aftan að leikamanninum með miklum krafti.

Með úrskurði aganefndar dags. 19. maí 2018 var AHF gerð refsing, einn leikur í bann, en frekari meðferð málsins frestað til dagsins í dag. Niðurstaða aganefndar í máli þessu, með hliðsjón af úrskurðum nefndarinnar í sambærilegum málum, að gera leikmanninum eins leiks bann til viðbótar við það bann sem hann hlaut með úrskurði aganefndar, dags. 19. maí 2018, eða alls tvo leiki í bann vegna atviksins.
Gunnar K. Gunnarsson tók þátt í nefndarstörfum þann 19. maí. Hann þurfti frá að hverfa áður en náðist að klára úrskurðinn, en hafði lýst þeirri skoðun sinni að hann væri ósammála meirihlutanum og hygðist skila inn sératkvæði.

Fleiri mál lágu ekki fyrir.

Úrskurðurinn tekur gildi á hádegi sunnudaginn 20. maí 2018.

Úrskurðinn kváðu upp Sverrir Pálmason og Arnar Kormákur Friðriksson.


Sératkvæði Gunnars K. Gunnarssonar, formanns aganefndar.

Eins og fram kom í upphaflegum úrskurði var undirritaður formaður agnefndar ekki aðili að honum. Þannig stendur á að ég er við störf við handknattleik í Magdeburg í Þýskalandi og hafði ekki tök á að eiga símasamtöl við meðnefndarmenn mína í morgun þar sem ég var við eftirlit á leik í úrslitum EHF keppninnar. Mín skoðun á þessu máli er sú að aganefnd hefði átt að vísa málinu frá á grundvelli greinar 17.11 í leikreglum þar sem fram kemur að ákvarðanir dómar á leikvelli sem byggðar eru á hvernig þeir sjái brot fyrir sé séu endanlegar. Næsta málsgrein sem segir að aðeins sé unnt að áfrýja ef dómar eru ekki í takt við reglur hefur alltaf verið túlkuð þannig að hún eigi aðeins við ef um rangan dóm var um að ræða sem hafði áhrif á úrslit leiks eins og t.d. ef dæmt er mark sem ekki fór inn eða ekki er dæmt mark þar sem knötturinn fór yfir línuna. Að öðrum kosti er ákvörðun dómara endanleg. Er þetta upphafið á því að dómarar í efstu deild fari yfir frammistöðu sína á upptökum og skili inn greinargerð ef þeir telja að þeim hafi misfarist í eitthverju? Það að stjórn HSÍ telji að um brot sem geti skaðað handknattleik á Íslandi er ég alls ekki sammála og finnst vera ákvörðun sem tekin var undir áhrifum frá fjöl- og samskiptamiðlum.

Mín niðurstaða byggist á þekkingu minni á regluverki handboltans sem ég hef öðlast í gegnum árin sem stjórnarmaður í HSÍ, framkvæmdastjóri HSÍ, varforseti dómstóls EHF og eftirlitsmaður HSÍ og EHF í áratugi sem og nefndarmaður í aganefnd HSÍ.

Ég hef átt samtöl við fjölda manna hér á úrslitum EHF keppninnar m.a. formann dómstóls EHF og formann dómaranefndar EHF og allir eru á einu máli um að upphaflegi úrskurður dómara eigi að ráða.

Þar sem þegar hefur verið úrskurðað í málinu að hálfu aganefndar get ég ekki lengur lagt til að málinu verði vísað frá en legg til að Andri verði ekki úrskurðaður til frekari refsingar.

Því miður tel ég að aganefnd sé með þessum úrskurði búin að opna ákveðna ormagryfju sem erfitt veri að komast upp úr í framtíðinni og búast megi við fjölda kæra í framtíðinni vegna starfa dómara.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert