Franskur úrslitaleikur í Köln

Michael Guigou í skotfæri í undanúrslitaleik Montpellier og Vardar í …
Michael Guigou í skotfæri í undanúrslitaleik Montpellier og Vardar í dag. Hann leikur til úrslita með franska liðinu á morgun, 15 árum eftir að hann lék síðast með liðinu í úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu. AFP

Það verður franskur úrslitaleikur í Meistaradeild Evrópu í handknattleik karla á morgun þegar Montpellier og Nantes mætast í Lanxess-Arena í Köln. Montpellier vann ríkjandi Evrópumeistara Vardar frá Makedóníu í æsilega spennandi undanúrslitaleik fyrir stundu, 28:27. Fyrr í dag vann Nantes lið Paris SG í hinni undanúrslitaviðureigninni, 32:28.

Montpellier lék síðast til úrslita í Meistaradeild Evrópu fyrir 15 árum og vann þá Portland San Antonio í tveimur úrslitaleikjum. Þjálfari liðsins, Partice Canayer, og hornamaðurinn Michael Guigou eru einir eftir í hópnum úr sigurliðinu fyrir 15 árum. Nantes hefur aldrei leikið til úrslita í keppninni.

Vardar sem vann Meistaradeildina fyrir ári mætir Paris SG í leiknum um þriðja sætið en liðin mættust í úrslitaleiknum fyrir ári.

Fyrri hálfleikur var lengst af nokkuð jafn. Montpellier var þó heldur með frumkvæðið og eins til tveggja marka forskot, sérstaklega þegar á leikinn leið. Leikmenn Vardar voru í mestu vandræðum í sóknarleiknum. Þeim tókst ekki að brjóta á bak aftur 5/1 vörn Montpellier sem „klippti“ Króatann Luka Cindric alveg úr leiknum. Leikmenn gerðu sig seka um einföld mistök, á heildina litið þá var leikur Vardar afar slakur í fyrri hálfleik. Ekki bætti úr skák að Arpad Sterbik náði sér ekki á strik í markinu og heldur ekki hinn íturvaxni Strahinja Milic sem leysti Sterbik af síðustu sjö eða átta mínútur hálfleiksins og stóð einnig vaktina nær allan síðari hálfleikinn.

Milic var undrabarn í handbolta og lék til að mynda sinn fyrsta landsleik fyrir A-landslið Serba tæplega 17 ára gamall. Síðan þá eru liðin hátt í 12 ár og þeim tíma hefur Milic ekki hugsað vel um sig. Engu að síður hefur hann verið í sex á samningi hjá Vardar, einu af bestu félagsliðum Evrópu.

Frakkarnir fóru með byr í seglum inn í búningsherbergi sitt í hálfleik og þremur mörkum yfir, 14:11, eftir að síðasta sókn Vardar rann út í sandinn á klaufalegan hátt. Frakkarnir nýttu sér síðustu sekúndurnar sem eftir voru af leiktímanum til þess að skora sitt 14.mark og ná í fyrsta sinn þriggja marka forskoti.

Monptellier hélt áfram að hafa frumkvæðið í síðari hálfleik. Leikmenn Vardar sóttu hart að Frökkunum og náðu að jafna metin, 27:27, þegar hálf önnur mínúta var til leiksloka.  Montpellier skoraði sigurmarkið 20 sekúndum fyrir leikslok og þrátt fyrir að eiga lokasóknina þá tókst leikmönnum Vardar ekki að jafna metin, Dainis Kristopans átti þrumuskot fram hjá Gerard og franska markinu á síðustu sekúndu.

Valentin Porte skoraði átta mörk fyrir Montpellier og var markahæstur. Michael Guigou var næstur með sjö mörk og Melvyn Richardsson skoraði sex sinnum. 

Vuko Borozan var markahæstu hjá Vardar með sex mörk eins og Luka Cindric en aðeins losnaði meira um hann í síðari hálfleik. Ivan Cupic var næstur með fimm mörk. 

Lið Montpellier er skipað nokkrum frönsku landsliðsmönnum og má þar m.a. nefna Ludovic Fabregas, Valentin Porte, Melvyn Richardson, son goðsagnarinnar Jackson Richardson, Vincent Gerard, markvörður, Baptiste  Bonnefond að ógleymdum Michael Guigou, hinum þrautreynda hornamanni sem var í sigurliði Montpellier í Meistaradeildinni fyrir 15 árum ásamt þjálfaranum Patrice Canayer sem enn er við stjórnvölin. Fyrir þá tvo sérstaklega getur morgundagurinn orðið sögulegur.

Anton Gylfi Pálsson og Jónas Elíasson dæmdu leikinn. Þeir stóðu sig með sóma. Strax í upphafi leiksins voru þeir strangir og sendu þar með skýr skilaboð til leikmanna liðanna. Anton og Jónas héldu sinni línu til leiksloka og létu leikmenn liðanna ekki komast upp með neinn moðreyk.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert