Parísarliðið fékk bronsið

Nikola Karabatic fékk oft óblíðar móttökur hjá varnarmönnum Vardar í …
Nikola Karabatic fékk oft óblíðar móttökur hjá varnarmönnum Vardar í leiknum um þriðja sætið í Meistaradeildinni í dag. AFP

Paris SG hafnaði í þriðja sæti í Meistaradeild Evrópu í handknattleik í dag eftir sigur á Vardar í Lanxess-Arena í Köln í dag. Þessi sömu lið léku til úrslita í keppninni í fyrra og hafði Vardar þá betur, 24:23.

Leikurinn í dag var hörkuskemmtilegur og jafn. Vardar, sem vann Meistaradeildina á síðasta ári, var þó lengst af með frumkvæðið í leiknum en forskotið var sjaldnast meira en eitt til tvö mörk. Í hálfleik hafði Vardar eins marks forskot, 15:14. Strax í upphafi síðari hálfleiks komst Vardar þremur mörkum yfir. Þegar rúmlega stundarfjórðungur var til leiksloka fór besti leikmaður Vardar í leiknum, Spánverjinn Jorge Maqueda, af leikvelli með sína þriðju brottvísun. Hann hafði þá skorað sex mörk í sjö skotum og verið afar aðsópsmikill í vörninni.

Leikmenn Paris SG sóttu í sig veðrið á lokakaflanum. Þeir virtust eiga meira eftir þegar á reyndi auk þess sem markvarslan var betri hjá Paris en Vardar.  Spánverjinn Rodrigo Corrales varði lengst af  vel í leiknum meðan Stranhinja Milic var ekki upp á það besta hinum megin vallarins í fjarveru Arpad Sterbik sem í gær lék sinn síðasta leik á ferlinum með Vardar.

Nedim Remili skoraði níu af mörkum Paris SG og var markahæstur.  Sandor Sagosen og hornamaðurinn örvhenti Benoit Kounkiud skoruðu fimm sinnum hvor.

Luka Cindric skoraði sjö mörk fyrir Vardar Jorge Maqueda sex. Ivan Cupic skoraði fimm sinnum.

Flestir leikmanna Vardar voru að leika sinn síðasta kappleik fyrir liðið. Rekstri liðsins verður breytt í sumar í sparnaðarskyni og fyrir vikið róa flestir leikmenn liðsins á ný mið. Yngri leikmenn úr akademíu félagsins taka við keflinu.

Eins lék Frakkinn Daniel Narcisse sinn síðasta leik í alþjóðlegri keppni. Hann tók talsvert þátt í leiknum í síðari hálfleik og skoraði m.a. eitt mark. Narcisse er einn þekktast og sigursælasti handknattleiksmaður Frakka á þessari öld. Hann ætlar að leggja skóna á hilluna eftir keppnistímabilið. Narcisse er 38 ára gamall og verður árinu eldri 16.desember.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert